Greiningardeild Íslandsbanka er orðin svartsýnni um stöðuna á vinnumarkaðnum í ár og gerir ekki lengur ráð fyrir eins mikilli aukningu í fjárfestingu hins opinbera og hún gerði í fyrrahaust. Þetta kemur fram í nýbirtri þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir tímabilið 2021-2023, en hún er fyrsta hagspá ársins.
Þrálátari faraldur og óvissa um ferðamenn
Í henni segir að margar blikur hafi vaxið á lofti undanfarið um að faraldurinn verði heldur þrálátari og efnahagsbatinn hægari en vonast var til, þrátt fyrir að margir hafi vonast til skjóts viðsnúnings í ár.
Í ár er búist við að hagvöxturinn nái 3,2 prósentum, en samkvæmt greiningardeildinni ræðst kraftur viðspyrnunnar fyrst og fremst af því hversu hraður upptakturinn verður í komu ferðamanna á komandi misserum.
Sökum mikillar óvissu um fjölda ferðamanna á næstu misserum útbjuggu höfundar þjóðhagsspárinnar þrjár sviðsmyndir. Í svörtustu sviðsmyndinni er búist við að einungis 400 þúsund ferðamenn komi til landsins í ár, á meðan búist er við þeir verði tæplega milljón talsins í þeirri björtustu.
Í grunnsviðsmyndinni sinni telur greiningardeildin þó að ferðamenn verði 700 þúsund talsins í ár og að langflestir þeirra komi á seinni hluta ársins. Á næsta ári er svo gert ráð fyrir 1,3 milljón ferðamanna og 1,5 milljón ferðamanna á því þarnæsta.
9,4 prósenta atvinnuleysi
Gangi grunnsviðsmynd bankans upp má búast við að atvinnuleysi verði um 9,4 prósent í ár, en það er nokkru hærra en meðalatvinnuleysi ársins 2020, sem áætlað er að hafi verið 8,6 prósent.
Nýju spátölur Íslandsbanka um vinnumarkaðinn í ár eru töluvert svartsýnni en þær sem birtust í síðustu þjóðhagsspá þeirra í fyrrahaust. Muninn má sjá á mynd hér að neðan, en í gömlu spánni var gert ráð fyrir 7,6 prósenta atvinnuleysi í ár. Aftur á móti hafa langtímahorfurnar ekki breyst, enn er spáð því að atvinnuleysið verði komið niður í fimm prósent á næsta ári.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í samtali við Kjarnann að spáin sé breytt þar sem nú sé búist við því að upptakturinn í efnahagslífinu verði seinna á ferðinni en áður var ætlað. Slík seinkun þýðir að meiri bið verður á ráðningum í mannaflsfrekum atvinnugreinum, líkt og ferðaþjónustunni, sem útskýri meiri atvinnuleysi í ár.
Opinberar fjárfestingar undir spám
Í stórum dráttum hefur þjóðhagsspáin þó lítið breyst hjá Íslandsbanka frá því í september, þar sem spár um vöxt landsframleiðslu og einkaneyslu fyrir árin 2020 og 2021 voru svipaðar og nú.
Hins vegar má sjá mikinn mun í væntum fjárfestingum hins opinbera á milli spáa, en þær eru áætlaðar hafa verið um fimmtungi minni í fyrra en bankinn spáði síðasta september. Muninn á væntum fjárfestingum má sjá á mynd hér að neðan.
Í þjóðhagsspá sinni í fyrrahaust gerði greiningardeildin ráð fyrir því að fjárfestingar hins opinbera myndu aukast um 17 prósent, þar sem gert var ráð fyrir því að ráðist yrði í fjölda fjárfestingarverkefna á síðustu mánuðum ársins.
Samkvæmt Jóni Bjarka var það svo ljóst út frá 9 mánaða þjóðhagsreikningum Hagstofu og nýju fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að minna yrði um opinberar fjárfestingar heldur en áður var talið. Í nýju þjóðhagsspánni gerir Íslandsbanki ráð fyrir að heildarfjárfestingar hins opinbera á árunum 2020-2023 nemi um 336 milljörðum króna, sem er 38 milljörðum krónum minna en bankinn gerði ráð fyrir í september.