Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddu málefni námsmanna í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þingmaðurinn spurði ráðherra hvort ekki væri kominn tími til „að grípa alla sem hafa orðið fyrir þessum hörmungum, atvinnuleysi, og eiga jafnvel ekki fyrir húsaleigu og ekki fyrir mat“. Katrín svaraði og sagði meðal annars að ríkisstjórnin hefði verið að vinna að fjölmörgum málum einmitt til að koma til móts við þennan hóp.
Guðmundur Ingi hóf mál sitt á því að benda á að 72 prósent stúdenta ynnu til að stunda nám. „Það sem er kannski merkilegast er að það kemur fram hjá stúdentum að frá 1. janúar 2010 hafa stúdentar, með lögum um atvinnuleysisbótarétt, greitt 4 milljarða í atvinnuleysistryggingagjöld án nokkurs bótaréttar, 4 milljarðar er niðurstaða útreikninga og þess vegna gera stúdentar skýrar kröfur um sanngjörn og viðunandi kjör hjá Menntasjóði námsmanna og rétt til atvinnuleysisbóta til jafns við aðra vinnandi landsmenn.“
Sagði þingmaðurinn að í gegnum kórónuveirufaraldurinn hefðu aðgerðir stjórnvalda ekki verið miðaðar við þann stóra hóp sem stúdentar mynda og gætu ekki talist haldbærar lausnir til lengri tíma. „Þannig eru þeir látnir standa eftir á sama tíma og unnið er hörðum höndum við að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins á öðrum sviðum samfélagsins. Langtímalausnir í átt að fjárhagslegu öryggi fyrir alla stúdentahópa eru nauðsynlegar og stúdentaráð áréttar kröfu sína um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu hjá Menntasjóði námsmanna. Pólitískur vilji verður að vera til staðar til að tryggja námsmönnum fjárhagslegt öryggi.“
Guðmundur Ingi spurði hvort stúdentar ættu ekki betra skilið. „Er þetta ekki COVID-mál? Eru þeir ekki að missa vinnunni út af COVID? Er ekki kominn tími til að grípa alla sem hafa orðið fyrir þessum hörmungum, atvinnuleysi, og eiga jafnvel ekki fyrir húsaleigu og ekki fyrir mat? Það hlýtur að vera tilgangurinn. Ef við ætlum að hjálpa einhverjum vegna COVID hljótum við að reyna að hjálpa öllum, er það ekki?“ spurði hann.
Fjölmörg mál koma einmitt til móts við þennan hóp
Katrín svaraði og sagðist vilja minna á að málefni námsmanna hefðu verið í forgrunni hjá ríkisstjórninni. „Bæði með því að styðja mun betur við háskólastigið en áður var gert með auknum framlögum til háskólanáms og rannsókna og vísinda og með því að grípa til sérstakra COVID-tengdra aðgerða síðasta sumar sem ég hlýt líka að minna hv. þingmann á. Þær miðuðu annars vegar að því að tryggja stúdentum sumarstörf við hæfi í samvinnu við sveitarfélögin og hins vegar var nýsköpunarsjóður námsmanna stórefldur. Þegar gripið var til þeirrar aðgerðar mátti sjá alveg gríðarlegan áhuga hjá stúdentum að nýta sér það að ráðast í verkefni tengd námi sínu á launum,“ sagði hún.
Þá benti hún á að Menntasjóður námsmanna væri sannarlega ekki COVID-tengt úrræði heldur hluti af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar til að koma betur til móts við námsmenn í þessu landi.
„Það frumvarp var samþykkt hér á Alþingi á síðasta þingi og snýst um það að hluti af framfærslu námsmanna er núna styrkur en ekki lán. Það stenst því auðvitað enga skoðun þegar hér er talað um að stúdentar hafi verið skildir eftir. Það er sannarlega ekki svo. Fjölmörg mál sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að koma einmitt til móts við þennan hóp. Þá er ég ekki að tala um almennar aðgerðir sem gagnast ungu fólki, til að mynda ungu fólki með börn sem hefur fengið að njóta hærri barnabóta, skattalækkanir sem gagnast fyrst og fremst hinum tekjulægri og svo framvegis. Vissulega hafa stúdentar verið hluti af stóru myndinni. Það er auðvitað svo að fleiri sækja nú nám en nokkru sinni fyrr samkvæmt nýjustu tölum frá háskólastiginu sem bendir til þess að margir hafi ákveðið að ráðast í nám á þessum skrýtnu tímum sem við lifum, kannski einmitt vegna atvinnuástandsins,“ sagði hún.
Ákveðinn hópur sem fellur milli skips og bryggju
Guðmundur Ingi kom aftur í pontu og sagðist vilja benda á að námsmenn segðust hafa greitt 4 milljarða í Atvinnuleysistryggingasjóð en ekkert fengið af því til baka.
„Það er lágmarkið að þeir fái eitthvað af þeim fjármunum til baka. Og af hverju eiga þeir sem eru að vinna með námi og leggja eiginlega á sig tvöfalda vinnu, ekki að fá það? Það er ákveðinn hópur sem dettur á milli skips og bryggju og sumir sem eru að detta út af atvinnuleysisbótum núna hafa reynt að fá alla þá vinnu sem býðst. Ég veit um einn sem datt út af atvinnuleysisbótum nú um áramótin. Hann var búinn að gera allt sem hann gat til að fá vinnu, var kominn í ferðamannabisness við að keyra rútur, en datt út af þeim núna um áramótin, veit ekki hvort hann á fyrir leigu eða neinu. Honum er sagt að fá félagsbætur en hann fær þær ekki ef makinn er með einhverjar tekjur. Hann er bara í vítahring. Við hljótum að þurfa að grípa þetta fólk líka. Við getum ekki bara sagt: Étið bara það sem úti frýs vegna þess að við ætlum ekkert að gera fyrir ykkur. Það gengur ekki upp. Þau borga eiginlega ekki húsaleigu og fæða ekki börnin sín,“ sagði þingmaðurinn.
Vilja tryggja námsmönnum framfærslu
Katrín svaraði í annað sinn og rifjaði það upp að það hefði verið ákvörðun ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að breyta bótarétti námsmanna vegna reynslunnar eftir hrun. Ákveðið hefði verið að reyna að tryggja námsmönnum framfærslu að sumri til og einbeita sér að því að bæta stuðningskerfi námsmanna þá í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna, nú í gegnum Menntasjóð námsmanna.
„Þar hafa í raun og veru verið sömu sjónarmið og ríkisstjórnin hefur haft til grundvallar, það er að segja við eigum að reyna að tryggja námsmönnum að sjálfsögðu framfærslu – alveg eins og við eigum að tryggja öllum framfærslu. Það gerum við í gegnum öflugt stuðningskerfi Menntasjóðsins og það að tryggja það að námsmenn hafi að einhverjum störfum að ganga á sumrin eins og við sannarlega gerðum í sumar og ég held að við höfum séð að það skilaði sér ekki bara í störfum heldur líka í aukinni þekkingu og ég nefni þar aftur Nýsköpunarsjóð námsmanna sem er besta tækið sem við eigum til að efla þekkingu og tryggja framfærslu námsmanna,“ sagði hún.