Ísland fellur um sex sæti og er í því sautjánda á lista Transparency International, alþjóðlegra samtaka gegn spillingu, um spillingu í helstu löndum heims fyrir árið 2020. Listinn virkar þannig að hvert land fær stig fyrir ákveðna þætti tengdum spillingu í opinbera geiranum og það land sem fær flest stig er talið minnst spillt samkvæmt spillingavísitölu Transparency International. Stigakvarðinn er frá 0 (mest spillt) upp í 100 (minnst spillt).
Spillingarvísitala Transparency International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Stofnunin sækir upplýingar sínar til mismunandi greiningarfyrirtækja og hvað Ísland varðar eru notaðar sjö gagnauppsprettur á undanförnum árum. Um er að ræða huglægt mat þeirra á spillingu. Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna.
Hin Norðurlöndin minnst spillt
Danmörk og Nýja Sjáland eru þau land sem er minnst spillt, með 88 stig af 100 mögulegum. Finnland, Svíþjóð, Singapore og Sviss koma þar á eftir með 85 stig saman í þriðja sæti og Norðmenn fylgja fast á eftir með 84 stig.
Staða Íslands á listanum hefur hins vegar versnað hratt á undanförnum árum og hefur aldrei verið verri en nú þegar landið er með 75 stig í 17. sæti af 180 löndum sem hann nær til. Ísland er því, enn eitt árið, það Norðurlanda sem þykir spilltast samkvæmt spillingarvísitölu Transparency International. Á árunum 2005 og 2006 var Ísland í 1. sæti listans. Á árinu 2008 féll Ísland niður í 7. sætið. En síðastliðinn rúma áratug ár hefur leiðin legið niður á við. Árið 2018 féll Ísland niður í 14. sæti og sat í því ellefta árið 2019.
Spilltasta land í heimi samkvæmt listanum eru Suður Súdan og Sómalía. Þau fá tólf stig á spillingarkvarðanum. Þar á eftir koma Sýrland, Jemen og Venesúela.
Mikið áhyggjuefni
Í tilkynningu frá Íslandsdeild Transperancy International, segir að þessar mælingar njóti mikillar viðurkenningar á alþjóðavettvangi. „Fall Íslands niður spillingarvísitölulistann er mikið áhyggjuefni og stjórnvöld sem og almenningur ættu að huga alvarlega að því hvað gæti valdið þessari þróun og hvernig er hægt að bæta úr stöðunni.“
Í tilkynningu þeirra sem send var út í morgun vegna birtingu listans segir að alþjóðastofnanir hafi lýst því yfir og rannsóknir sýni með óyggjandi hætti að spilling er illvíg meinsemd sem ógni lýðræðinu, grundvallarréttindum, tækifærum og lífsgæðum fólks hvarvetna í heiminum og grafi undan trausti í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum og stofnunum á sviði framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. „Ísland engin undantekning frá því.“
Íslands þarf að gera meira
Í fyrrahaust kom út ný eftirfylgnisskýrsla GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, um Ísland. Niðurstaðan hennar var að Ísland þurfi að gera meira til þess að koma í veg fyrir spillingu og efla heilindi hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds og innan löggæslustofnana.
Í skýrslunni var lagt mat á það hvernig íslensk stjórnvöld hefðu til þessa brugðist við þeim 18 tillögum að úrbótum sem GRECO setti fram í skýrslu sinni um Ísland árið 2018. Búið var að koma til móts við fjórar þeirra með fullnægjandi hætti, að mati samtakanna. Sjö tillögur til viðbótar voru sagðar hafa verið innleiddar að hluta, en ekki var búið að innleiða breytingar til þess að mæta sjö tillögum sem lúta flestar að löggæslumálum.
Í fréttatilkynningu frá GRECO, sem send var út um miðjan nóvember 2020 vegna útkomu skýrslunnar, sagði að þrátt fyrir að samtökin kynnu að meta heildræna nálgun sem íslensk stjórnvöld hefðu tekið gagnvart því að byggja upp varnir gegn hagsmunaárekstrum á æðstu stöðum í stjórnsýslunni, vanti enn upp á nokkra hluti.
Sérstaklega nefndi GRECO að það skorti upp á leiðbeiningar til embættismanna um hvernig þeir skuli haga samskiptum sínum við þriðju aðila og hagsmunaverði. Þá sagði einnig GRECO að þær reglur sem tóku gildi um síðustu áramót og komi í veg fyrir að æðstu handhafar framkvæmdavalds (sem skilgreindir eru sem ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar) geti fært sig yfir í hagsmunagæslu innan við sex mánuðum frá starfslokum hjá hinu opinbera, virtust „fremur veikar“.