Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að þótt spilling eigi aldrei að viðgangast sé kannski ekki hægt að koma alveg í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar vikju af vegi dyggðarinnar í viðskiptum. „Þá kemur einmitt að hlutverki stjórnvalda, að lög og skilaboð stjórnvalda séu skýr. Öllum sé ljóst að hart verði tekið á hvers kyns bellibrögðum og fjárveitingar til nauðsynlegra eftirlitsstofnana, meðal annars umboðsmanns Alþingis, skattrannsóknarstjóra, saksóknara, séu ekki skornar við nögl.“
Þetta kom fram í máli þingmannsins í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun en hann innti eftir svörum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, varðandi það sem hann kallaði spillingarmál.
Logi hóf fyrirspurn sína á því að minnast á hinn árlega lista Transparency International sem mælir spillingu en Ísland fellur um sex sæti milli ára. Landið er nú í 17. sæti og neðst Norðurlandanna sem raða sér í efstu sætin.
„Í skýrslunni segir að spilling sé illvíg meinsemd sem ógni lýðræðinu. Það sýni rannsóknir með óyggjandi hætti. Spilling ógni grundvallarréttindum, tækifærum og lífsgæðum fólks og grafi undan trausti í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum, stofnunum framkvæmdarvaldsins, löggjafarvaldsins og dómsvaldsins. Meðal skýringa nefnir skýrslan bankahrunið, fjármálavafstur stjórnmálamanna í Panama-skjölunum og nú síðast Samherjamálið, einnig að spilling nái til opinberra aðila. Lái mér enginn þó að hugurinn reiki örstutt að Landsréttarmálinu,“ sagði Logi.
„Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur áður svarað mér að hann hafi ekki áhyggjur af spillingu á Íslandi og í íslensku viðskiptalífi, bæði í kjölfar þess að Ísland lenti á gráum lista og þegar Samherjaskjölin birtust. Það eru út af fyrir sig mjög skýr skilaboð. Hann virðist líta á mál sem koma upp sem tilfallandi en ekki kerfisvanda sem stjórnvöld eigi að taka á. Transparency International lítur öðruvísi á og hefur áhyggjur bæði af stöðunni og þróun síðustu ára.“
Spurði Logi Bjarna hvort hann væri jafn áhyggjulaus nú og þegar hann spurði hann fyrir einu ári eða fyndist honum tilefni til að taka mið af ábendingunum. Og ef svo væri, hvað hygðist ríkisstjórnin gera.
Kjósa menn að líta á glasið hálftómt eða hálffullt?
Bjarni svaraði og sagðist telja að dæmin sem Logi nefndi því til stuðnings að það þyrfti að hafa miklar áhyggjur af spillingu á Íslandi væru nú heldur léttvæg.
„Að kalla það mál spillingu í Landsréttarmálinu þegar öll gögn eru opin, þegar Alþingi kemur að málinu og tekur síðustu ákvörðunina, þegar embættismenn mæta fyrir nefndasvið og færa rök fyrir tillögu ráðherrans, þegar hér í þingsal eru greidd atkvæði fyrir opnum tjöldum. Að kalla afgreiðslu slíkra mála spillingu er auðvitað með miklum ólíkindum.
Hérna skiptir dálítið máli hvort menn kjósa að líta svo á að glasið sé hálftómt eða að það sé hálffullt. Þegar við skoðum þessa niðurstöðu með aðeins jákvæðara hugarfari en háttvirtur þingmanni virðist vera tamt að gera, þá má sjá að Ísland skipar sér í flokk með þeim þjóðum í heiminum þar sem spilling er minnst. En vilji menn hins vegar leggja einhverja aðra mælistiku á það mál og skoða í hvaða hópi við erum ekki er jú hægt að draga það fram að á þennan mælikvarða, sem er ekkert algildur mælikvarði eða fullkominn á nokkurn hátt, skorum við ekki jafn hátt og Norðurlöndin,“ sagði ráðherrann.
Bjarni telur það sjálfsagt að velta því upp hvað stjórnvöld geti gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. „Eitt af því sem er áberandi í skýrslu sem þessari, og það sama á við um GRECO-úttektir, er að það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem menn hafa í höndunum, heldur tilfinningin fyrir því að einhvers staðar grasseri spilling, einhver svona óljós tilfinning. Oft gerist það nú þegar formenn í stjórnmálaflokkum koma upp og tala einmitt inn í þá tilfinningu, að hún versnar.“
Dæmin alls ekki léttvæg
Logi kom aftur í pontu og sagði að þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda gegn spillingu þá vildi hann hafa glasið fullt og að dæmin sem hann nefndi væru nefnilega alls ekki léttvæg.
„Ég nefndi bankahrun. Ég nefndi óeðlilegt fjármálavafstur stjórnmálamanna í tengslum við Panama-skjölin og ég nefndi Samherjaskjölin. Mig langar þá að nefna í samhengi við þessa skýrslu að nýlega birtist skoðanakönnun MMR sem sýnir að einungis 23 prósent treysta fjármálaráðherranum til að halda utan um sölu á Íslandsbanka. Þetta er forvitnileg niðurstaða og það vakna óneitanlega spurningar,“ sagði hann og spurði í framhaldinu hvort Bjarni teldi að hér væru landsmenn að lýsa tortryggni í garð fjármálaráðherra Íslands yfirleitt, og þá stjórnvalda, að um væri að ræða kerfisvanda, eða teldi hann, eins og í hinum málunum, að um væri að ræða afmarkaðan vanda og tortryggni í garð fjármálaráðherrans og tengsl hans við eitt af þessum málum í skýrslunni.
Bara „einhver þvæluumræða“
Fjármálaráðherra svaraði í annað sinn og sagði að komið væri „dálítið langt frá kjarna máls þegar við erum farin að skiptast á skoðunum um niðurstöður skoðanakannana. Eða ættum við kannski að velta því fyrir okkur hér, myndi það skila okkur eitthvað fram veginn í þágu þjóðarinnar, hvers vegna það skyldi vera að 83 til 84 prósent þjóðarinnar vilji ekki Samfylkinguna sem valkost við stjórn landsins. 83 prósent segja bara nei þegar Samfylkingin býður fram, við kjósum eitthvað annað. Þetta er bara einhver þvæluumræða.
Aðalatriðið er að við stöndum við það sem sagt hefur verið í bankasölumálinu, að fylgja opnu og gagnsæju ferli þar sem enginn er að flýta sér. Við stígum varfærin skref og fylgjum því sem boðað hefur verið, að allir geti tekið þátt sem hafa áhuga,“ sagði Bjarni.