Áhorf á fréttir Stöðvar 2 meira en helmingaðist eftir að lokað var fyrir að aðrir en áskrifendur gætu horft á þær mánudaginn 18. janúar. Í vikunni á undan var áhorf á fréttirnar 23,2 prósent en viku síðar var það komið niður í 10,8 prósent.
Til samanburðar var áhorf á fréttir RÚV 29,8 prósent. Áhorf á fréttir Stöðvar 2 fór því úr að vera 78 prósent af áhorfi RÚV í að vera 36 prósent þess.
Hjá aldurshópnum 12-49 ára fór áhorfið úr ellefu prósent í 5,6 prósent.
Þetta kemur fram í tölum sem Gallup birtir vikulega um áhorf á íslenskar sjónvarpsstöðvar.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði við vb.is á föstudag að það væri ekki rétt að bera saman heildaráhorf á Stöð 2 við línulega dagskrá RÚV þar sem efnisveitan Stöð 2+ væri utan áhorfsmælinga. Þau skipti sem horft sé á fréttatímann þar mælist því ekki með í áhorfskönnunum Gallup.
Vill RÚV af auglýsingamarkaði
Greint var frá ákvörðun Sýnar að loka hinum svokallaða opna glugga, sem í áratugi hefur verið að mestu opinn öllum til áhorfs, fyrir öðrum en áskrifendum 11. janúar síðastliðinn. Ákvörðunin hefur leitt að sér aukna umræðu um umfang RÚV á auglýsingamarkaði og áhyggjur af því að fréttastofa ríkismiðilsins sitji ein að sjónvarpsfréttatímamarkaðnum í opinni dagskrá.
Gefa ekki upp hversu margir hafa bæst við
Í kjölfar þess að Gallup birti nýjar tölur sínar um sjónvarpsáhorf seint í liðinni viku sendi Sýn frá sér tilkynningu þar sem kom fram að nýsala áskrifta hefði tvöfaldast í janúar 2021 miðað við sama mánuð í fyrra og að nú væru yfir 40 þúsund heimili með aðgang að Stöð 2+.
Kjarninn sendi fyrirspurn á Sýn og að um upplýsingar um fjölda áskrifenda að hverri sjónvarpsáskriftarleið sem í boði er hjá félaginu og upplýsingar um hversu margir hefðu bæst við í janúar 2021.
Í svari Magnúsar Hafliðasonar, forstöðumanns samskipta- og markaðssviðs, sagði að Sýn gæfi ekki upp fjölda í hverri áskriftarleið að svo stöddu. Þá vildi hann heldur ekki gefa upp fjölda þeirra sem bæst hefðu við í yfirstandandi mánuði. „Það mun mögulega koma fram síðar þegar áhrif breytinganna eru betur komin fram en við erum aðeins rétt rúmar tvær vikur frá breytingunni.“
Magnús sagði enn fremur að fjöldi áskrifenda hefði aukist þvert á allar þrjár leiðir Sýnar: Stöð 2, Stöð 2+ og Stöð 2 Sport. „Frá síðasta hausti höfum við séð mjög mikinn vöxt í efnisveitunni sem í dag heitir Stöð 2+.“
Auglýsingatekjur drógust saman um 15 prósent
Sýn keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum í lok ársins 2017. Um er að ræða ljósvakamiðla á borð við Stöð 2, Bylgjuna og tengdar útvarpsstöðvar og fréttavefinn Vísi. Kaupverðið var 8,2 milljarðar króna.
Á milli áranna 2018 og 2019 lækkuðu tekjur Sýnar af umræddum fjölmiðlum um 446 milljónir króna og í upphafi árs 2020 var viðskiptavild sem var tilkomin vegna fjölmiðlanna sem voru keyptir lækkuð um 2,5 milljarða króna.
Í fjárfestakynningu vegna nýjasta uppgjörs Sýnar, sem var fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2020, kom fram auglýsingatekjur fjölmiðla Sýnar hafi dregist saman um 15 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil 2019, og að það sé meginástæða þess að fjölmiðlatekjur hafi haldið áfram að lækka. Það var sagt að stórum hluta vegna áhrifa af yfirstandandi heimsfaraldri. Tekjur af sjónvarpsdreifingu hafi hins vegar aukist og jákvæð þróun er sögð í áskriftartekjum milli ársfjórðunga eftir að þær drógust saman á fyrri hluta ársins 2020.