Einbúavirkjun ekki rædd því margir enn með „óbragð“ eftir Svartárvirkjunardeilu

Bárðdælingar hafa ekki rætt sín á milli um fyrirhugaða Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti því margir þeirra eru enn með „óbragð“ eftir Svartárvirkjunardeiluna. „Það er mjög erfitt og sárt að að standa í þessu,“ segir íbúi í Bárðardal.

Flúðir á framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar.
Flúðir á framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar.
Auglýsing

Ástæðan fyrir því að annar eigandi félagsins sem hyggst reisa Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti hefur ekki upplifað að áformin hafi haft sundrungaráhrif á samfélagið í Bárðardal er einföld: Málið hefur ekkert verið rætt í sveitinni. Deilan um Svartárvirkjun, sem stóð í mörg ár, var erfið og margir veigra sér við að stíga fram nú af þeim sökum.


Þetta var meðal þess sem fram kom í máli íbúa í dalnum á kynningarfundi sem skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar boðaði til fyrir helgi þar sem kynntar voru tillögur að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og tillaga að deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar. Þeir sem kynntu tillöguna og sátu fyrir svörum voru fulltrúar Einbúavirkjunar ehf. og Verkís, verkfræðistofunnar sem vann skipulagstillögurnar fyrir framkvæmdaðilann. Á sama tíma og fundurinn fór fram sátu sveitarstjórnarmenn á sveitarstjórnarfundi og voru því ekki til svara. 

Atli Steinn Sveinbjörnsson skipulagsfulltrúi Þingeyjarsveitar stýrði kynningarfundinum, sem fram fór í félagsheimilinu Kiðagili og var streymt á Facebook, og sagði í lok hans að allar athugasemdir og spurningar sem komu fram yrðu birtar sveitarstjórn. Þá sagði Arnór Benónýsson oddviti sveitarstjórnar í kommenti á Facebook-síðu fundarins að spurningunum yrði svarað á opinberum vettvangi við fyrsta tækifæri.

Auglýsing


Mikið hefur mætt á hinu fámenna samfélagi í Bárðardal síðustu misserin vegna áforma um að reisa virkjun í Svartá, einni af þverám Skjálfandafljóts. Sú virkjunarhugmynd fékk afar neikvæða umsögn í áliti Skipulagsstofnunar í lok síðasta árs auk þess sem bent var á ýmsa vankanta í matsskýrslu framkvæmdaaðilans, SSB Orku. Í álitinu var m.a. farið í gegnum þær 77 athugasemdir sem bárust stofnuninni þar sem fram komu m.a. þau sjónarmið að áform um virkjun í Svartá hafi skapað ósætti meðal íbúa sveitarfélagsins.


Í álitinu voru einnig rifjuð upp orð sveitarstjóra og oddvita Þingeyjarsveitar í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um samfélagsleg áhrif virkjana: „Svartárvirkjun mun kljúfa samfélagið í Bárðardal, ef það hefur ekki þegar verið gert.“

Staðsetning fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti. Mynd af vef SUNN

Til þessara orða vitnuðu íbúar á kynningarfundinum um áformaða Einbúavirkjun á fimmtudag og þótt umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hafi verið þeim hugleikin voru það hin samfélagslegu sem voru þeim hvað efst í huga. „Þessi umræða sem ég hef verið að lesa í fjölmiðlum um klofning samfélagsins hérna, það er bara helvítis bull og ekkert annað,“ sagði Friðrika Sigurgeirsdóttir, bóndi á Bjarnastöðum, og bætti við að málið hefði verið blásið upp í fjölmiðlum. Bjarnastaðir eiga land að Svartá og skrifaði Friðrika í opinni færslu á Facebook í byrjun janúar, eftir að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir, að hún hefði bundið vonir við að Svartárvirkjun myndi leysa af hólmi litla heimavirkjun í ánni sem fyrst var komið upp á fyrri hluta síðustu aldar. Sú litla virkjun útheimti vinnu vegna bilana, oft við erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður.

Ekki gert ráð fyrir virkjununum á aðalskipulagi

Fyrirhuguð Einbúavirkjun er líkt og sú sem til stóð að reisa í næsta nágrenni í Svartá rétt innan við 10 MW sem þýðir að lögum samkvæmt þarf hún ekki að fara í gegnum ítarlegt ferli rammaáætlunar þar sem virkjanakostir eru flokkaðir í orkunýtingar, bið- eða verndarflokk. Bæði verkefnin hafa hins vegar farið í gegnum umhverfismat. Ekki er gert ráð fyrir þessum virkjunum í gildandi aðalskipulagi Þingeyjarsveitar svo breytinga á því er þörf eigi framkvæmdirnar að verða að veruleika. Nú hefur framkvæmdaaðili varpað ljósi á það umfang sem framkvæmdin hefur í för með sér og í kjölfarið mun sveitarstjórn taka ákvörðun um hvort taka eigi tillöguna lengra, senda hana í auglýsingarferli og fá þær athugasemdir sem berast.

Kort úr matsskýrslu af Einbúavirkjun í Bárðardal.


Bárðardalur í Þingeyjarsveit er efsti hluti vestasta dalsins sem gengur upp frá Skjálfandaflóa. Hann er fremur mjór og langur og um hann fellur Skjálfandafljót. Fljótið á upptök sín í Vonarskarði og undirhlíðum Bárðarbungu og því eru margir og miklir fossar. Þekktastur þeirra er Goðafoss og er Einbúavirkjun fyrirhuguð um sjö kílómetrum ofan hans. Efst í dalnum er svo t.d. Aldeyjarfoss sem á síðustu árum hefur orðið vinsæll áningarstaður ferðamanna.


Bárðardalur er talinn einn lengsti byggði dalur á landinu en um 45 kílómetrar eru á milli neðsta og efsta bæjar. Neðsti bær er rúmlega 100 metra yfir sjávarmáli en efsti bær, Svartárkot, er um 400 m.y.s. Íbúar voru 85 árið 2005.

Mokað krapa í 55 ár

Svartá er lindá með nokkuð jöfnu rennsli en Skjálfandafljót, þar sem virkjun kennd við eyðijörðina Einbúa er nú fyrirhuguð, er hins vegar að uppistöðu jökulá þar sem rennsli getur sveiflast mikið milli árstíða og krapamyndun og framburður sömuleiðis orðið mikill. „Ég, maður sem hef mokað krapa í 55 ár, datt aldrei í hug að þessi hugmynd færi svona langt,“ sagði Hlöðver Pétur Hlöðversson, bóndi að Björgum, bæ skammt frá ósum Skjálfandafljóts, sem viðraði áhyggjur sínar af áhrifum krapa og stórgrýti sem honum getur fylgt á vélar virkjunarinnar.


Í umsögn sinni um frummatsskýrslu Einbúavirkjunar benti náttúruverndarnefnd Þingeyinga á að þótt Bárðardalur og ásýnd hans mótist af ábúð manna og á heildina litið sé hann ekki viðkvæmur fyrir þeim mannvirkjum sem framkvæmdinni myndu tengjast þá sé farvegur Skjálfandafljóts óraskaður af manna völdum. Stórar virkjanir í fljótinu hafa staðið til, m.a. við Hrafnabjörg, en í tillögu til þingsályktunar um þriðja áfanga rammaáætlunar, er lagt til að sá virkjanakostur fari í verndarflokk. Tillagan hefur beðið afgreiðslu þingsins frá árinu 2016.

Vatni yrði veitt um skurð frá stíflu og að stöðvarhúsi. Mynd: Úr matsskýrslu

Í greinargerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, sem samþykkt var árið 2011, kemur fram sú stefna sveitarfélagsins að nýta vatnsafl innan þess, sé það til hagsbóta fyrir íbúa og í samræmi við sjálfbæra þróun. „Þingeyjarsveit telur eftirsóknarvert að kanna frekar framtíðarmöguleika á og kosti þess að byggja fleiri virkjanir til einkanota sem og orkusölu á frjálsum raforkumarkaði, en sveitarfélagið er á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót.“

Stefnubreyting?

Þessi afstaða er svo ítrekuð og undirstrikuð síðar í greinargerðinni: „Eins og fram kemur í kafla 4.1, Framtíðarsýn og meginmarkmið, er það almenn stefna sveitarfélagsins að nýta vatnsafl í sveitarfélaginu enn frekar, en sveitarfélagið er á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót.“


Var þetta meðal þess sem íbúar og aðrir þeir sem fylgdust með kynningarfundinum um Einbúavirkjun óskuðu eftir að sveitarstjórnarmenn útskýrðu: Hvort að allsherjar stefnubreyting hefði orðið og sveitarfélagið nú áfram um að setja virkjun í Skjálfandafljót. „Ég ætla ekki að telja hér upp marga þá skelfilegu þætti sem fylgja [Einbúavirkjun], sem ég tel á margan hátt mun verra en ætluð virkjun Svartár, sem er hliðará fljótsins, en hérna erum við að tala um virkjun í sjálfu Skjálfandafljóti,“ sagði Gunnlaugur Friðrik Friðriksson, eigandi og ábúandi að Sunnuhvoli, í þessu sambandi. „Mér finnst það vera nokkuð stórt mál að sveitarfélagið haldi opinn fund þar sem kynnt er þessi stóra breyting á skipulagsstefnu félagsins, að stefnan breytist úr því að ekki skuli virkja fljótið yfir í að virkja skuli fljótið, og enginn komi frá sveitarfélaginu sem treysti sér til að svara fyrir það.“

Svartá er í Bárðardal í Þingeyjarsveit. Mynd: Aðsend


Í ágúst árið 2019 lagði verkfræðistofan Verkís fyrir hönd félagsins Einbúavirkjunar ehf. fram frummatsskýrslu um byggingu Einbúavirkjunar til athugunar hjá Skipulagsstofnun. Tæpu ári síðar birti stofnunin álit sitt. Mun lengri tími leið á milli þess sem frummatsskýrsla Verkís fyrir hönd SSB Orku um Svartárvirkjun var lögð fram og þar til álit Skipulagsstofnunar lá fyrir eða rúmlega þrjú ár.


 „Hingað til í þessu ferli hefur ríkt nokkur sátt, að við skiljum, um þessa framkvæmd,“ sagði Hilmar Ágústsson, annar eigandi Einbúavirkjunar ehf., á kynningarfundinum í fyrradag, spurður af einum fundargesta um að hvaða leyti hann hefði áhyggjur af því að „kljúfa samfélagið í herðar niður með áformum af þessu tagi“.

Aðeins þrjár athugasemdir

Hilmar benti á að á meðan tæplega áttatíu athugasemdir hefðu borist við frummatsskýrslu um Svartárvirkjun hafi aðeins þrjár borist um Einbúavirkjun. „Þannig að það hefur almennt ríkt nokkur sátt um þessa virkjun, eins og ég hef upplifað það. Þess vegna hefur það í raun og veru ekki verið metið sem svo að þetta væri að hafa einhver sundrungaráhrif á þetta samfélag.“


Einar Jónsson, skipulagsfræðingur hjá Verkís, sem kynnti skipulagstillögurnar á fundinum, sagðist telja „smá átök“ eðlileg í lýðræðissamfélagi. Jafnvel um virkjanamál. „Ég held að það sé frekar styrkleiki heldur en hitt. En auðvitað er ekkert fengið með að kljúfa samfélagið. Og ég held að það sé ekki meiningin. Við erum mætt hér að tala saman og allt í góðu enn.“

Nýleg mynd af Skjálfandafljóti á þeim slóðum þar sem vatni yrði veitt úr farvegi fljótsins um pípu og skurð að stöðvarhúsi. Mynd: Aðsend


Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, bóndi í Svartárkoti í Bárðardal, sagði það „hárrétt“ hjá Hilmari að það væri ekki ástæða til að hafa áhyggjur af klofningi í samfélaginu „því að þetta hefur ekkert verið rætt í samfélaginu. Menn hafa ekki tekið þessa umræðu“. Hún viti ekki hvað sveitungum hennar finnist almennt um virkjanaáformin, „við nefnilega erum ekkert að ræða það“.


Hún velti því upp hvort að það væri ekki einmitt rík ástæða til að ræða málin, „jafnvel þó að þau séu erfið“. Guðrún sagðist telja að ein helsta ástæða þess að fyrirhuguð Einbúavirkjun hafi ekki verið rædd sé hvernig viðbrögðin urðu í aðdraganda Svartárvirkjunar „Við erum svo góð í því að ákveða að láta ekki eitthvað svona eyðileggja samfélagið okkar að við ræddum þetta einfaldlega aldrei. Þetta var sett til hliðar.“ 

Auglýsing


Guðrún sagði erfitt að geta ekki rætt kosti og galla fyrirhugaðrar framkvæmdar í sveitinni. „Mig langar ekki að búa í samfélagi þar sem ég má ekki hafa skoðun.“ Það hafi verið hennar upplifun í aðdraganda Svartárvirkjunar, að fólk nái ekki að vera sammála um að vera ósammála. Betra hefði verið að umræðan og athugasemdir um áformaða Einbúavirkjun hefðu komið fram fyrr í ferlinu. „En þetta snýst um ásýnd dalsins,“ sagði hún. „Og þó að við séum samfélag sem er hvorki ríkt eða mjög töff þá ríkir hér einhver róleg og notaleg stemning sem fólk sem sækir okkur heim finnur.“

Mikilvægt væri að ræða opinskátt um samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar, þau væru jákvæð að einhverju leyti, þ.e. sveitarfélagið fær ákveðnar tekjur og sömuleiðis eigendur jarða sem eiga land að virkjuninni, „en hvaða fleiri jákvæðu samfélagslegu áhrif sjáum við?“

Á fundinum kom fram að ekki er búið að reikna út hverjar fasteignatekjur Þingeyjarsveitar yrðu af virkjuninni. Í matsskýrslu kemur fram að mannaflsþörf yrði mikil á framkvæmdatíma en enginn að honum loknum.  

Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti er efst í Bárðardal. Mynd: Ólafur Már Björnsson

 „Þetta yrði stór virkjun,“ sagði Gunnlaugur á Sunnuhvoli á fundinum. „Annað er hreinlega ekki rétt. Hlutfallslega er minni stærðarmunur á þessar virkjun og Kárahnjúkum heldur en á þessari virkjun borið saman við venjulega heimavirkjun. Hún er hlutfallslega nær Kárahnjúkum í afli en meðal heimavirkjun. Þó hún sé mjög stór í okkar samhengi, skiptir hún hverfandi máli í stóru myndinni ef horft er til orkuframleiðslu landsins og hún hefur ótrúlega lítil jákvæð fjárhagslega áhrif á samfélagið.  Útreikningar sýna til dæmis að beinar fastar tekjur sveitarfélagsins af virkjuninni munu vera minni en sem nemur útsvarstekjum af einum góðum launamanni til eða frá,“ sagði Gunnlaugur sem vísaði til útreikninga Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN.

Skiljanlega erfitt að ræða málið


„Mig grunar að fólk sem hefur efasemdir um þessa virkjun muni eiga erfitt með að stíga fram og segja sinn hug,“ hélt Gunnlaugur áfram. „Ég hef rætt við allnokkra íbúa hérna í dalnum um þetta og nánast allir sem ég hef rætt við hafa miklar efasemdir um þessa virkjun. Hins vegar heldur fólk þeirri skoðun fyrir sig, sem er skiljanlegt, sérstaklega í ljósi þess hvað Svartárdeilan var erfið, og það gerir þetta samtal enn erfiðara.“


Sagðist hann halda að margir hefðu enn „óbragð“ eftir Svartárvirkjunardeiluna, „og ég er þar með talinn. Það er mjög erfitt og sárt að að standa í þessu.“


Gunnlaugur sagði að það sem sér þætti einna verst væri að landeigendum væri haldið í voninni árum saman um tekjur en þeim ekki gerð full grein fyrir þeirri óvissu sem fylgdi verkefni sem þessu. „Svo er skuldinni skellt á náttúruverndina. Frekar ætti að gera athugasemdir við óraunhæfar skýjaborgir einkafyrirtækja sem fara út í verkefni á við þetta.“

Mynd sem fylgdi tilkynningu á vef Þingeyjarsveitar um kynningarfundinn vakti athygli Gunnlaugs á Sunnuhvoli. Á henni sést meira af malarvegi en fljótinu sem á að virkja.

Rætur Gunnlaugs í Bárðardal eru mjög sterkar og dvaldi hann oft sem barn að Sunnuhvoli. „Afi minn sem byggði húsin sem standa á Sunnuhvoli og hét líka Gunnlaugur. Og afi hans á undan honum hafði búið á sama stað.“ Fyrir þremur árum tók hann svo við jörðinni og hefur síðan þá unnið að endurbótum og uppbyggingu. „Mig dreymir um að byggja framtíð hérna i dalnum. Ég skil í hverju aðdráttarafl hans felst og við þurfum að leyfa aðdráttarafl dalsins að toga í fleiri. Við mig hefur verið sagt í sambandi við þessa virkjun að hér sé bara gamalt fólk. Þá má álykta að þessi barátta um framtíð samfélags Bárðardals sé töpuð. Ég er ekki sammála því. Ég er ekki sammála því af þeirri ástæðu að við sjáum fólk búa til tækifæri hér í dalnum, og ég trúi á að það sé hægt að styrkja þetta samfélag enn meira. En stífla í Skjálfandafljótið er ekki lausnin.“

Engu að síður mikilvæg áhrif

Í áliti Skipulagsstofnunar á matsskýrslu SSB Orku um Svartárvirkjun kom fram að miðað við það sem fram kom í athugasemdum frá íbúum, sem og í skýrslu um samfélagsleg áhrif virkjana, þar sem rætt var við fjölda íbúa og sveitarstjórnarfólk í Þingeyjarsveit, væri mögulegt að virkjun Svartár kæmi til með að hafa áhrif á samheldni íbúa nærsamfélagsins. „Slík óhlutbundin áhrif er erfitt að áætla eða meta en engu að síður er um að ræða mikilvæg samfélagsleg áhrif.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar