Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, segir að allir skattar sem greiddir verði vegna sölu fyrirtækisins til Twitter verði greiddir á Íslandi.
Í stöðuuppfærslu á Twitter, sem er á ensku, segir Haraldur að hann hafi fæðst á Íslandi og að foreldrar hans hafi verið lágtekjufólk. Auk þess glími hann við alvarlega fötlun. „En þar sem þetta land býður upp á fría skóla og fría heilbrigðisþjónustu þá gat ég ég dafnað.“
I was born in Iceland to low income parents. I have a serious disability.
— Halli (@iamharaldur) January 30, 2021
But because this country has free schools and free healthcare I was able to thrive.
I am proud to say that all taxes from the Ueno sale will be paid in Iceland to support a system that supported me.
Þess vegna sé hann stoltur að greina frá því að allir skattar sem verða greiddir vegna sölunnar á Ueno, sem er tækni- og hönnunarfyrirtæki sem Haraldur stofnaði utan um verkefnavinnu árið 2014, verði greiddir á Íslandi til að styðja við það kerfi sem studdi við hann á sínum tíma.
Ueno hefur verið með starfsemi í San Francisco, New York og Los Angeles, auk skrifstofu í Reykjavík, og hefur stækkað hratt á síðustu árum.
Fyrirtækið hefur sinnt verkefnum fyrir fjölmörg stórfyrirtæki, til dæmis Google, Apple og Facebook, auk AirBnB, Slack, Uber og fjölda annarra.
Samkvæmt tilkynningu Davis munu Haraldur og aðrir starfsmenn Ueno ganga til liðs við hönnunar- og rannsóknadeild Twitter, eftir að hafa áður sinnt verkefnum fyrir samskiptamiðilinn sem verktakar.
Kaupverðið í þessum viðskiptum hefur ekki verið gefið upp, en Ueno velti yfir tveimur milljörðum króna árið 2019.
Í frétt tæknimiðilsins TechCrunch var haft eftir talsmanni Twitter, þegar greint var frá kaupunum, að Ueno muni ljúka verkefnum sínum fyrir aðra viðskiptavini á næstu vikum.
Síðan muni Twitter hitta alla núverandi starfsmenn Ueno til þess að kynnast þeim og sjá hvar og hvort þeir muni passa inn í starfsemi Twitter.