Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að sér hafi oft og mörgum sinnum verið hótað frá því að hann hóf afskipti að pólitík og málefnum VR og lífeyrissjóða árið 2009. Vinsælasta hótunin sé hvort hann gerir sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif skrif hans geti haft á atvinnutækifæri hans í framtíðinni. „Á einum tímapunkti var mér hótað, skriflega, að ákveðin öfl muni tryggja að hvorki ég né fjölskylda mín, foreldrar og börn, fái nokkurn tíma vinnu í íslensku samfélagi.“
Þetta kemur fram í grein sem Ragnar birtir á Vísi í dag.
Þar segir Ragnar enn ennfremur að aðrir í þeim hópi sem hóf baráttu gegn kerfinu á þessum vettvangi hafi allir utan hans og eins annars misst vinnuna, alls fimm manns. „Ein ákvað að þiggja stóra stöðu og fara yfir í hitt liðið.“
Ragnar segir að sér hafi einnig verið hótað lífláti oftar en einu sinni. Einu sinni hafi fjölskylda hans þurft að leita til lögreglu vegna þess að einstaklingur vandi komur sínar á heimili hennar með handskrifaðar líflátshótanir. „Þá var eiginkonu minni nóg um, og mér auðvitað líka. Við erum stór fjölskylda með fimm börn út og inni af heimili okkar og hundinn Bowie. Lögreglan afgreiddi málið af mikilli fagmennsku og ekki hafa orðið eftirmálar af því, annars væri ég ekki að skrifa þetta.“
Fjölskyldan dró þá ályktun, að sögn Ragnars, að þetta hafi verið hótanir sem hafi sprottið úr harðri orðræðu í aðdraganda Lífskjarasamningsins sem undirritaður var í apríl 2019. Innihald bréfanna hafi gefið það til kynna. „Við vorum úthrópuð stórhættulegt „sturlað“ öfgafólk sem vildi rústa samfélaginu með kröfum okkar.“
Skotið á bifreið borgarstjóra
Umræða um hótanir í garð fólks sem tekur þátt í stjórnmálum eða er í forystu víðar í þjóðfélagsumræðunni hefur verið umtalsverð síðustu daga í kjölfar þess að skemmdir sem virðast vera eftir byssuskot voru unnar á skrifstofu Samfylkingarinnar og bifreið Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík. Byssukúlur fundust í hurð bifreiðar Dags fyrir rúmri viku.
Árásin á heimili Dags hefur verið sett í samhengi við myndband sem aðgerðarhópur sem berst fyrir því að bílar fái að keyra um Laugaveg og Skólavörðustíg setti á Youtube í desember. Í myndbandinu, sem horft hefur verið á í yfir 30 þúsund skipti, var því haldið fram að Dagur hefði keypt þrjú bílastæði við heimili sitt af Reykjavíkurborg án útboðs og að kostnaður við gerð Óðinstorgs, sem stendur í námunda við heimili Dags, hafi verið á 657 milljónir króna. Hið rétta er að Dagur og fjölskylda hans keyptu tvö stæði fyrir áratug síðan af nágrönnum, enda stæðin í einkaeigu. Raunverulegur kostnaður við gerð Óðinstorgs var 60,6 milljónir króna samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem send var út á föstudag.
Búið að fjarlæga myndbandið
Einn forsvarsmanna hópsins, Bolli Kristinsson kenndur við Sautján, hefur beðist afsökunar á einni rangfærslu í myndbandinu og það var fjarlægt af Youtube fyrr í dag.
Dagur sagði í Silfri Egils í gær að hann gæti ekki fullyrt um orsakasamhengi milli myndbandsins og skotárásarinnar. „Hinsvegar sagði ég strax þegar farið var að keyra þetta á stærstu netmiðlum landsins að þetta ylli mér óhug. Ég var ekkert einn í fjölskyldunni um það. Okkur fannst þetta mjög óhugnanlegt. Mér fannst þarna verið að fara inn á alveg nýjar brautir í íslenskri pólitík, færa mörkin og gera heimili mitt að skotskífu. Þá grunaði mig ekki það sem núna gerðist.“