Jeff Bezos stofnandi og forstjóri bandaríska stórfyrirtækisins Amazon ætlar að skipta um hlutverk í sumar og færa sig yfir í hlutverk stjórnarformanns hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Amazon.
Þar segir að Andy Jessy, sem í dag er æðsti yfirmaður skýjavinnsludeildar fyrirtækisins, verði næsti forstjóri. Hann mun taka við keflinu af Bezos í upphafi þriðja ársfjórðungs.
Jessy hefur starfað hjá Amazon allt frá árinu 1997 og hefur löngum verið talinn líklegastur til þess að verða næsti forstjóri, þegar Bezos myndi stíga frá daglegum rekstri Amazon-veldisins fyrir fullt og allt. Nú er ljóst hvenær það verður.
Geispið besta hrósið
Í tilkynningunni frá Amazon er haft eftir Bezos að Amazon sé það sem það sé í dag vegna nýjunganna sem það hafi komið með fram á sjónarsviðið.
„Ef þú framkvæmir hlutina rétt þá verður óvænt nýsköpun orðin venjuleg innan fárra ára. Fólk geispar. Þetta geisp er besta hrós sem uppfinningamaður getur fengið,“ er haft eftir Bezos, í tilkynningunni frá Amazon.
Þar segir hann einnig að hann telji Amazon aldrei hafa verið jafn skapandi og því sé þessi tímapunktur kjörinn til að hann sjálfur taki að sér nýtt hlutverk.
Bezos stofnaði Amazon árið 1994, í upphafi einfaldlega sem rafræna bókabúð. Síðan þá hefur fyrirtækið heldur betur vaxið og er í dag orðið stærsta netverslunarfyrirtæki í heimi, auk þess sem fyrirtækið hannar og framleiðir margskonar vörur undir eigin vörumerki.