Eva Bergþóra Guðbergsdóttir hefur verið ráðin til þess að leiða samskiptateymi Reykjavíkurborgar, en frá þessu er greint í tilkynningu á vef borgarinnar. Alls sóttu 45 manns um starfið, sem var auglýst í desember.
Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir að Eva Bergþóra hafi víðtæka reynslu af samskipta- og upplýsingamálum, en hún hefur starfað sem aðstoðarfréttastjóri á Stöð 2 og Bylgjunni, og áður sem fréttamaður bæði á Stöð 2 og RÚV.
Síðastliðinn áratug hefur hún starfað hjá samskiptasviði Middlebury-háskólans í Kaliforníu í Bandaríkjunum, nú síðast sem deildarstjóri. Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að starf hennar þar þar hafi snúið að upplýsingamiðlun, gerð markaðsefnis fyrir vef og samskiptamiðla, stefnumótun ásamt innri og ytri samskiptum. Eva Bergþóra er jafnframt aðjúnkt við skólann.
Eva Bergþóra er með BA í ensku og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið MA gráðu í alþjóðasamningagerð og MPA gráðu í stjórnsýslufræðum frá Middlebury Institute of International Studies.
Í auglýsingunni um starfið sagði að viðkomandi myndi fara „með faglega forystu varðandi framsækni og framþróun í upplýsingagjöf, vöktun, miðlun og samskiptum borgarinnar við starfsfólk, íbúa, fjölmiðla og gesti borgarinnar“ og vinna að því að Reykjavíkurborg yrði í fararbroddi á þessu sviði.
Verður tíundi starfsmaðurinn í upplýsingafulltrúastöðu hjá borginni
Kjarninn greindi frá því í desember að fyrir væru upplýsingafulltrúar í níu stöðugildum hjá Reykjavíkurborg, þar af einn í 80 prósent starfshlutfalli.
Í svari borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði að sex hafi verið í upplýsingadeild/samskiptateymi sem starfi þvert á fagsviðin og tveir hjá umhverfis- og skipulagssviði, þar af annar í 80 prósent starfi. Þá hafi einn nýlega ráðinn í 100 prósent starf hjá velferðarsviði.
Árlegur launakostnaður við þessi níu stöðugildi var um 102 milljónir, að því er fram kom í svarinu.