Ríkisstjórnin gæti haldið með minnihluta fylgis á bakvið sig

Ný könnun sýnir að þrír stjórnarandstöðuflokkar myndu saman fá níu fleiri þingmenn nú en haustið 2017. Aðrir flokkar tapa fylgi en Sjálfstæðisflokkur ver þingmannafjölda sinn vegna dauðra atkvæða. Allskyns stjórnarmynstur eru í kortunum.

Ríkisstjórnin gæti haldið velli þrátt fyrir að flokkarnir sem að henni standa séu allir að mælast með minna fylgi en þeir fengu í kosningunum 2017.
Ríkisstjórnin gæti haldið velli þrátt fyrir að flokkarnir sem að henni standa séu allir að mælast með minna fylgi en þeir fengu í kosningunum 2017.
Auglýsing

Samfylkingin, Pírata og Viðreisn myndu samtals fá 26 þingmenn kjörna ef kosið yrði nú samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Það eru níu fleiri þingmenn en þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar fengu haustið 2017. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja er um 40 prósent en þeir fengu 28 prósent í síðustu kosningum. Samfylkingin yrði þeirra stærstur með 17 prósent fylgi og ellefu þingmenn, Viðreisn myndi fá um tólf prósent atkvæða og átta þingmenn og Píratar um ellefu prósent og sjö þingmenn. Þeir eru einu flokkarnir sem voru í framboði fyrir rúmum þremur árum sem myndu bæta við sig fylgi og þingmönnum ef kosið yrði í dag.

Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV um nýja Þjóðarpúlsinn.

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, hafi tapað um tveimur prósentustigum frá síðustu kosningum og mælist með 23 prósent fylgi þá myndi hann samt fá sama þingmannafjölda (16) ef gengið yrði til kosninga í dag, samkvæmt Gallup. Vinstri græn, sem myndu tapa um fjórum prósentustigum og fá í kringum 13 prósent atkvæða ef kosið yrði nú,  myndu einungis tapa tveimur þingmönnum og fá níu. Framsókn, sem myndi tapa um tveimur prósentustigum og fá um níu prósent samkvæmt umfjöllun RÚV, myndu tapa einum þingmanni og fá sjö. Það þýðir að ríkisstjórnin gæti að óbreyttu haldið velli með minnsta mögulega meirihluta – 32 þingmönnum af 63 – þrátt fyrir að fylgi hennar hafi fallið úr 53 í 45 prósent.

Mikið af atkvæðum gætu fallið niður dauð

Ástæðu þessa má finna í því að töluvert magn atkvæða myndu falla niður dauð ef könnun Gallup yrði niðurstaða kosninga. Bæði Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands mælast með um fjögur prósent fylgi hvor sem myndi ekki skila þeim inn manni á þing að óbreyttu. Slík staða myndi ýkja þingmannafjölda þeirra flokka sem kæmust inn umtalsvert og skapa ofangreinda stöðu, þar sem hægt yrði að fá meirihluta þingmanna með einungis 45 prósent fylgi. 

Auglýsing
Miðflokkurinn myndi ná inn á þing en ekki ná jafn góðum árangri 2017, samkvæmt könnun Gallup. Hann yrði minnsti flokkurinn þar með um átta prósent fylgi sem myndi skila fimm þingmönnum. Miðflokkurinn fékk sjö menn kjörna í síðustu kosningum auk þess sem að flokkurinn bætti við sig tveimur þingmönnum úr Flokki fólksins eftir Klausturmálið. Þingflokkur Miðflokksins myndi því að óbreyttu skreppa saman um 45 prósent. 

Ýmiskonar stjórnarmynstur í kortunum

Ýmsir stjórnarmöguleikar eru í stöðunni samkvæmt könnun Gallup. Miðað við núverandi fylgisstöðu væri, líkt og áður sagði, hægt að halda núverandi ríkisstjórnarsamstarfi áfram. Í ljósi þess að tveir af upprunalegu 35 þingmönnum stjórnarflokkanna hafa þegar yfirgefið þá, og meirihlutinn telur nú einungis 33 þingmenn, yrði ekki stórkostleg breyting að fækka þingmönnunum á bakvið stjórnina niður í 32. Sú stjórn gæti styrkt sig með aðkomu Miðflokks (fimm þingmenn) eða Viðreisnar (átta þingmenn). Bæði Samfylkingin og Píratar hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk sem gerir það að verkum að útiloka verður allar mögulegar tegundir samstarfs sem skeyta þeim saman.  

Hægt yrði að mynda félagshyggjustjórn frá miðju til vinstri sem innihéldi Samfylkinguna, Vinstri græn, Pírata og Framsóknarflokkinn. Slík stjórn myndi vera með 34 þingmenn. 

Það væri líka hægt að ráðast í enduröpun á því mynstri sem er til staðar í stjórn Reykjavíkurborgar, þar sem Framsóknarflokknum yrði skipt út fyrir Viðreisn. Þá myndi stjórnarþingmönnunum fjölga um einn og þeir verða 35. 

Ef mynda ætti stjórn frá hægri og inn á miðjuna yrði hún að innihalda fjóra flokka: Sjálfstæðisflokk, Viðreisn, Framsóknarflokk og Miðflokk. Slík stjórn myndi hafa 36 þingmenn. 

Framsókn og Miðflokkur í vandræðum í Reykjavík

Gallup mældi líka fylgi eftir kjördæmum í nýjustu könnun sinni. Þar virðist athyglisverðasta niðurstaðan vera sú að Framsóknarflokkurinn næði ekki inn kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, en þar verða ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason í oddvitasætum. Afar ólíklegt er að Miðflokkurinn næði inn kjördæmakjörnum þingmönnum í höfuðborginni, en það er í samræmi við aðrar kannanir sem birst hafa undanfarið. 

Samfylkingin mælist sterkust í Reykjavík og myndi ná að verða stærsti flokkurinn í Reykjavíkurkjördæmi suður ef kosið yrði nú. Athyglisvert er að tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, eru að mælast jafn stórir í Norðausturkjördæmi, en þar sjá Vinstri græn fram á fylgistap að óbreyttu eftir brotthvarf Steingríms J. Sigfússonar úr oddvitasætinu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent