Sýn, sem rekur fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, styður framlagt fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eins langt og það nær. Félagið segir samþykkt frumvarpsins þó ekki duga að óbreyttu til þess að þeirri ákvörðun að senda fréttir Stöðvar 2 út einungis fyrir áskrifendur verði snúið.
Þetta kemur fram í umsögn Sýnar um fjölmiðlafrumvarpið.
Samkvæmt frumvarpinu munu einkareknir fjölmiðlar sem uppfylla skilyrði þess geta fengið allt að 25 prósent af ritstjórnarkostnaði endurgreiddan úr ríkissjóði. Hámarksupphæð styrkja er 100 milljónir króna og sem stendur eru þeir fjármunir sem settir hafa verið til hliðar fyrir kerfið 400 milljónir króna. Ef umsóknir fara yfir þá upphæð, sem er óumflýjanlegt miðað við rekstrarkostnað íslenskra fjölmiðla, þá munu framlög til allra skerðast jafnt.
Vilja RÚV af auglýsingamarkaði
Í umsögn Sýnar segir að staða einkarekinna fjölmiðla muni ekki verða lagfærð fyrr en að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði og samkeppnisstaða innlendra miðla við erlendar efnisveitur verði jöfnuð.
Þar er bent á að árunum 2016 til 2019 hafi hlutdeild erlendra aðila á auglýsingamarkaði hér á landi farið úr 29 prósent upp í 41 prósent þegar horft sé til heildargreiðsla fyrir birtingu auglýsinga. „Á sama tíma lækkaði hlutdeild innlendra aðila úr 71 prósent niður í 59 prósent. Á þessu tímabili jukust greiðslur til erlendu aðilanna um tæplega 2 milljarða en greiðslur til innlendra fjölmiðla drógust saman um rúmlega 3 milljarða. Þetta er meðal þess sem sjá má í tölum Hagstofunnar um tekjur fjölmiðla fyrir árið 2019 sem birtar voru 22. janúar.“
Þá er rakið að á árunum 2018 til 2019 hafi hlutur RÚV í samanlögðum auglysingatekjum útvarps (hljóðvarps og sjónvarps) hækkað úr 40 prósent í 44 prósent. „Af þessu verður ráðið að brýn nauðsyn ber til að takmarka fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði í áföngum, til að mynda um 25% á ári á fjögurra ára tímabili. Telur Vodafone [Sýn] að þrátt fyrir slíka skerðingu á tekjuöflunarmöguleikum þá muni rekstrarafkoma RÚV ekki skerðast í sömu hlutföllum. Ræðst þetta af því að samhliða væri unnt að draga verulega úr starfsemi eða leggja niður hina fjölmennu og ágengu auglýsingadeild, sem nú er starfrækt á RÚV. Sala RÚV á auglýsingum á tímabilinu færi einkum fram á netinu á grundvelli opinberrar og gagnsærrar verðskrár og með lágmarks umsýslukostnaði. Kostnaður við rekstur auglýsingadeildar myndi lækka á lágmarki um 80 prósent. Staða RÚV mun að líkindum styrkjast þegar ákvarðanir um dagskrá miðast ekki við áhorfsmælingar og auglýsingatekjur heldur efnistök og gæði.“
Hafa áhyggjur af efnisveitum
Sýn hefur verið að missa spón úr aski sínum undanfarið, en efnisveitan Viaplay hefur náð til sín hluta af sýningarétti á meistaradeild Evrópu. Í nánustu framtíð verður því sýnt frá þeirri keppni bæði á rásum Sýnar og á Viaplay. Þá tryggði síðarnefnda fyrirtækið sér nýverið sýningarrétt á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á árabilinu 2022-2028.
Í umsögn Sýnar segir að nauðsynlegt sé að löggjafinn tryggi að erlendar efnisveitur beri sömu skyldur og innlendar til að mynda þegar kemur að kröfum til talsetningar og þýðingar efnis.
Félagið vill auk þess að mynddeiliveitum á borð við Google og Facebook verði gert að afla samþykkis rétthafa fyrir deilingu deilingu á fréttum og fréttatengdu efni og að rétthöfum verði heimilt að krefjast sanngjarns endurgjalds fyrir afnot af slíku höfundaréttarvörðu efni sínu.
Þá vill Sýn að tryggingargjald á fjölmiðlaveitur með skattalegt heimilisfesti hér á landi verði lækkað.
Þrjú fyrirtæki fengu 64 prósent af upphæðinni
Frumvarpið sem nú liggur frammi, og virðist njóta nægjanlegs stuðnings til að verða afgreitt, er umtalsvert breytt frá upprunalegum hugmyndum um styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Stærsta breytingin felur í sér að þak á greiðslu til hvers fjölmiðils hefur verið hækkað úr 50 í 100 milljónir króna. Frumvarpið sem nú liggur frammi tekur mið að reglugerð um stuðning til einkarekinna fjölmiðla vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem sett var í fyrra. Reglugerðin gerði það að verkum að greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum skertust um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs. Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, fékk mest allra, eða hámarksstyrk upp á 99,9 milljónir króna. Sýn fékk 91,1 milljón króna og Torg, sem gefur út Fréttablaðið og tengda miðla, fékk 64,7 milljónir króna. Alls fóru 64 prósent styrkjanna til þessarra þriggja fjölmiðlafyrirtækja.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum eins og frumvarpið er í dag.