Alls 17 þingmenn frá Samfylkingu, Pírötum og Flokki fólksins, auk eins utan flokka, hafa lagt fram breytingartillögu við stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ef breytingartillagan yrði samþykkt myndi verða hægt að breyta stjórnarskrá án þingrofs, en í dag þurfa tvö þing að samþykkja breytingar á stjórnarskrá áður en þær taka gildi.
Samkvæmt breytingartillögunni á að leggja frumvarp sem samþykkt hefur verið á Alþingi um breytingar á stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu til að undirstrika vald þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa. Til þess að það verði hægt vilja þingmennirnir að nýrri grein verði bætt við stjórnarskránna þess efnis. Í greininni á enn fremur að segja að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að „fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé frumvarpið samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal það staðfest af forseta lýðveldisins innan tveggja vikna og er þá gild stjórnarskipunarlög.“
Katrín mun mæla fyrir frumvarpi sínu um stjórnarskrárbreytingar á Alþingi í dag. Samkvæmt frumvarpinu munu nokkur atriði stjórnarskrárinnar taka breytingum, verði það samþykkt. Þar er um að ræða atriði sem fjalla um forseta Íslands, ríkisstjórnir, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir í náttúru Íslands og íslensk tunga.
Breytingartillagan er lögð fram af Loga Einarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Ingu Sæland, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Söru Elísu Þórðardóttur, Guðmundi Andra Thorssyni, Smára McCarthy, Helgu Völu Helgadóttur, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Guðmundi Inga Kristinssyni.
Vilja öðruvísi auðlindaákvæði
Þetta er ekki eina breytingartillagan sem lögð hefur verið fram vegna frumvarps Katrínar. Tvær aðrar, sem snúa að auðlindaákvæði frumvarpsins, höfðu þegar komið fram.
Sami hópur og vill afnema þörfina á þingrofi til að breyta stjórnarskrá lagði fram breytingartillögu á þessu ákvæði í lok síðasta mánaðar.
Hún felur meðal annars í sér að bannað yrði að veðsetja auðlindir sem séu sameiginleg og ævivarandi eign þjóðarinnar. Það gæti haft mikil áhrif á stöðu mála innan sjávarútvegsins ef veiðiheimildir yrðu innkallaðar með einhverjum hætti og leigðar út að nýju, þar sem stór hluti úthlutaðs kvóta hefur verið veðsettur til að kaupa upp veiðiheimildir annarra eftir að slíkt var leyft með lögum árið 1997. Afleiðing þessa hefur verið mikið samþjöppun í sjávarútvegi, en samkvæmt nýjustu tölum halda tíu útgerðir á um helming alls úthlutaðs kvóta og fjórar blokkir innan geirans halda á tæplega 43 prósent hans.
Tillagan felur líka í sér að fest yrði í stjórnarskrá að stjórnvöld geti leyft afnot eða hagnýtingu auðlinda „gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“
Afnot verði aldrei ótímabundin
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lagði einnig fram breytingartillögu vegna auðlindaákvæðisins. Tillaga Þorgerðar Katrínar gengur annars vegar út á að orðinu „varanlega“ verði breytt í „ótímabundna“ í öðrum málslið annar málsgreinar frumvarps Katrínar. Sá liður myndi í kjölfarið hljóma svona: „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða ótímabundinna afnota.“
Með þessu yrði fest í stjórnarskrá að úthlutun á t.d. fiskveiðikvóta væri tímabundin, og þar með innkallanleg. Eins og sakir standa í dag er kvóta úthlutað til vörsluaðila hans til ótímabundinna afnota.
Hins vegar vill Þorgerður Katrín að í stað þess að síðasti málsliður þriðju málsgreinar ákvæðisins orðist svona: „Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni“ segi í honum: „Með lögum skal kveða á um eðlilegt endurgjald fyrir tímabundnar heimildir til nýtingar í ábataskyni.“