„Við verðum að auka endurnotkun á hlutum. Við eigum að nota þá betur. Við eigum að nota minna og við eigum að endurvinna eins mikið og við getum.“ Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en hann telur að sorpbrennslur séu ekki eina lausnin til að meðhöndla sorp sem best hér á landi.
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, vakti máls á málefninu og beindi spurningum til umhverfis- og auðlindaráðherra.
„Eins og hæstvirtum ráðherra er kunnugt um urðum við mestallt okkar sorp í dag. Þannig urðum við árlega um og yfir 200.000 tonn af sorpi og undanskil ég þar allan óvirkan úrgang. Þá höfum við einnig á undanförnum árum flutt út töluvert magn af úrgangi og kom fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn frá mér fyrr í vetur að þar er um að ræða um það bil 120.000 tonn árlega, að mestu til endurnýtingar og -vinnslu. Nýlegar fréttir um eitthvað af sorpi Vesturlanda endi á risastórum sorphaugum í löndum þriðja heimsins valda okkur auðvitað áhyggjum af afdrifum alls þess sorps sem verið er að flytja á milli landa,“ sagði Karl Gauti.
Þingmaðurinn sagið að í ljósi þess að nú liti út fyrir að urðun verði hætt í Álfsnesi innan tveggja ára vildi hann beina þeirri spurningu til ráðherra hvort hann gæti ekki verið sammála honum um að við getum ekki lengur haldið áfram á þessari braut, það er að urða og flytja út úrgang.
„Ef hann er sammála mér, hvaða lausnir sér hæstvirts ráðherra fyrir sér í þeim efnum? Verðum við ekki að leysa sorpmál okkar sem næst upprunastað sorpsins, það er hér á landi? Nú hefur tækni við brennslu sorps fleygt fram á umliðnum árum og vestrænar þjóðir hafa byggt mjög umhverfisvænar sorpbrennslur í því skyni að losna við úrgang og framleiða um leið varma og raforku sem þær svo nýta. Ég hef í þrígang flutt tillögu um að stjórnvöld kanni af alvöru að reisa slíka stöð hér á landi og leysa þannig sorpvanda okkar. Sér hæstvirtur ráðherra fyrir sér að hann beiti sér fyrir því að slík stöð rísi hér á landi?“ spurði Karl Gauti.
Hefur talað fyrir því að setja á urðunarskatt
Guðmundur Ingi svaraði og sagðist vera sammála Karli Gauta um að draga yrði mjög mikið úr urðun, en að það væri einmitt eitt af viðfangsefnum nýrrar stefnu um meðhöndlun úrgangs sem drög væru komin að í samráðsgátt stjórnvalda.
„Að auki eru drög að lagabreytingum sem munu einmitt leiða til þess, ef að líkum lætur, að urðun minnki til muna hér á landi. Meðal annars er stefnt að því að taka upp skyldu á flokkun, samræma flokkun alls staðar á landinu og færa þjónustuna nær íbúunum þannig að í þéttbýli verði skylda að bjóða upp á við húsvegg að taka á móti lífrænum úrgangi, úrgangi sem er með pappa og pappír og plasti.“
Sagði ráðherrann þetta allt saman vera grundvallaratriði til að ýta undir endurvinnslusamfélag á Íslandi og að það skipti mjög miklu máli. „Ég hef talað fyrir því að setja á urðunarskatt til þess að búa til hvata til að leiða til þess að það verði minni urðun en er í dag. Það er í þessari stefnu og ég vonast til að geti komið til framkvæmda á næstu árum.
Mig langar að segja varðandi sorpbrennslu og beina því til háttvirts þingmanns að sorpbrennslur eru ekki eina lausnin, en þær eru lausnin á því sem við getum ekki endurnotað, getum ekki endurunnið eða endurnýtt. Það er betra að brenna sorpi og búa til orku en að urða það. En við megum ekki byggja upp þannig kerfi að það sé eina lausnin í úrgangsmálum á Íslandi. Þá væri ekki vel fyrir okkur komið. En við þurfum að vinna að þeim lausnum líkt og öðrum.“
„Er ekki kominn tími til að fara að undirbúa byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar?“
Karl Gauti spurði ráðherrann í annað sinn og sagðist fagna því að hann hefði látið vinna skýrslu sem heitir Stefna í meðhöndlun úrgangs. Drög að þeirri stefnu hefðu verið sett í umsagnarferli á vegum ráðuneytisins í átt að hringrásarhagkerfi.
Vildi hann benda ráðherra á að þar væru lögð drög að 24 aðgerðum á vegum stjórnvalda í úrgangsmálum en að þar væri ekki að finna nein áform um að reisa sorpbrennslustöð hér á landi.
„Hæstvirtur ráðherra talar um að til séu fleiri leiðir. Ég get tekið undir það, það hefur einnig verið rannsakað að hægt er að endurnýta úrgang og auðvitað verðum við að stefna að því. En í dag erum við að urða 200.000 tonn, og yfir það, og flytja eitthvað út. Og þó að við endurnýtum og endurvinnum töluverðan hluta þarf alltaf að losna við eitthvað. Niðurstöður þessarar skýrslu eru þær að það eru u.þ.b. 100.000 tonn. Hvað ætlar hæstvirtur ráðherra að gera í þeim málum? Og tíminn líður, Álfsnes er að loka. Er ekki kominn tími til að fara að undirbúa byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar?
Íslendingar urða of mikið
Guðmundur Ingi svaraði og benti á að endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs væri um 30 prósent á Íslandi, en ætti að vera 50 prósent. Það væri viðfangsefnið.
„Við urðum of mikið, það er hárrétt hjá háttvirtum þingmanni. En að halda að sorpbrennsla sé eina lausnin í þessu sambandi segir mér bara að þingmaðurinn einblínir of mikið á eina ákveðna lausn. Við verðum að auka endurnotkun á hlutum. Við eigum að nota þá betur. Við eigum að nota minna og við eigum að endurvinna eins mikið og við getum. Að því sögðu er í skoðun á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins og fleiri aðila með hvaða hætti sorpbrennslumálunum verði best fyrir komið á Íslandi vegna þess að það kallar á ákvörðun um það hvort við eigum að ráðast í eina stóra stöð, sem næst uppruna úrgangsins, eða fleiri minni sem yrðu þá dreifðar út um allt land og sú vinna er í gangi,“ sagði ráðherrann að lokum.