Daði Már Kristófersson, prófessor við Félagsvísindasvið við Háskóla Íslands og varaformaður Viðreisnar, segist vera hlynntur einkavæðingu ríkisfyrirtækja í samkeppnisrekstri. Hins vega sé hann ekki hlynntur einkavæðingu hagnaðar og ríkisvæðingu taps.
Greinir hann frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni en tilefnið er umræða um sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka.
Vísar hann í grein Gylfa Zoega sem birtist á Kjarnanum í síðustu viku þar sem hann fjallaði um söluna og útskýrði hvers vegna bankar væru ekki eins og venjuleg fyrirtæki og hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir sölu banka.
Hvetur Daði Már fólk til þess að velta fyrir sér nokkrum spurningum. „Hvaða áhrif hefði það á markaðsvirði Íslandsbanka ef hann yrði seldur án stuðnings ríkisins? Án lánveitanda til þrautavara? Án innistæðutrygginga? Með skilyrði um að ríkið mundi aldrei koma honum eða viðskiptavinum hans til aðstoðar ef illa færi? Virði bankans mundi falla,“ skrifar hann.
„En erum við þá ekki að selja bankann með loforði um hugsanleg ríkisútgjöld ef illa fer? Kostnað sem fellur á samfélagið? Verður ekki að taka tillit til þessa kostnaðar við mat á tilboðum í Íslandsbanka? Hefði ekki átt að setja viðmið um eigendur og reglur um ábyrgð eigenda áður en ráðist er í söluna? Eða ætlum við að hámarka skammtímagróða og vona það besta?“ spyr Daði Már enn fremur.
Skynsamlegt skref að kanna virði fjórðungshlutar í Íslandsbanka
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tjáði sig um sölu Íslandsbanka fyrr í mánuðinum en þá sagði hún að sporin hræddu þegar kemur að sölu á eignarhlut ríkisins í bankakerfinu. Hins vegar þyrfti að greiða niður skuldir ríkissjóðs og það yrði meðal annars gert með sölu eigna.
Sagðist hún telja það skynsamlegt skref að kanna virði fjórðungshlutar í Íslandsbanka og selja hann ef rétt verð fengist.
Formaðurinn sagði að mikilvægt væri að leita allra leiða til að fjármagna halla ríkissjóðs með öðrum leiðum en lántöku. „Í því liggja almannahagsmunir, framtíðarhagsmunir. Því ef að líkum lætur munu alþjóðlegir vextir hækka fyrr en síðar með auknum byrðum á ríkissjóð og skattgreiðendur.“