Endurskoðunarfyrirtækinu KPMG hefur verið gert að láta embætti héraðssaksóknara í té upplýsingar og gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherjasamstæðunnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þarf fyrirtækið að láta héraðssaksóknara hafa upplýsingar og gögn sem varða eina tiltekna skýrslu sem KPMG vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn um þetta í byrjun desember. Dómurinn féllst á kröfur héraðssaksóknara um að KPMG yrði skyldað til að láta gögnin af hendi og núverandi og fyrrverandi starfsmönnum félagsins yrði sömuleiðis gert skylt að veita embættinu þær upplýsingar sem þeir búa yfir.
KPMG, sem sá um bókhald Samherja árum saman og þar til í fyrra, hefur þannig verið skyldað til þess að aflétta þeim trúnaði sem ríkir milli endurskoðenda og viðskiptavina þeirra, en kveðið er á um þagnarskyldu endurskoðenda í lögum.
Reynt að komast að því hver tók ákvarðanir hjá Samherja
Fram kemur í úrskurðinum, sem varð opinber í þessari viku í kjölfar þess að Landsréttur tók málið fyrir og vísaði kæru Samherja frá, að rannsókn héraðssaksóknara beinist að ætluðum brotum starfsmanna eða fyrirsvarsmanna Samherja. Þau séu talin kunna að varða við greinar almennra hegningarlaga sem fjalla um mútubrot og peningaþvætti, og eftir atvikum auðgunarbrotakafla laganna.
Lesa má í úrskurði héraðsdóms að héraðssaksóknari telji nauðsynlegt að upplýsa um atriði sem varði fjárhag- og rekstrarafkomu félaga innan samstæðu Samherja vegna rannsóknar málsins. Sömuleiðis að það hafi þýðingu fyrir rannsókn embættisins að upplýsa eins og hægt er hvernig töku ákvarðana var háttað innan samstæðu Samherja.
Þar kemur þessi skýrsla við sögu. Umrædd skýrsla KPMG fyrir Samherja, eða öllu heldur drög að henni, hafa verið til umfjöllunar áður. Um þau var meðal annars fjallað í bókinni Ekkert að fela eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán A. Drengsson sem kom út í nóvember 2019. Skýrslan er eins konar greining á því hvernig skipulag Samherjasamstæðunnar var á þessum tíma.
Samkvæmt mati sérfræðinga KPMG, sem byggði m.a. á viðtölum við starfsfólk Samherjasamstæðunnar, var forstjórinn og stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson nær einráður í fyrirtækinu og með alla þræði í hendi sér. Engin formleg framkvæmdastjórn var sögð innan Samherja hf., samkvæmt þessum drögum sérfræðinga KPMG.
Athugasemdir voru gerðar við ýmislegt af því sem fram kom í mati KPMG af hálfu Samherja og í síðari drögum að skýrslunni var búið að draga úr umfjöllun um hlutverk og áhrif stjórnarformannsins. Héraðssaksóknari telur vert að skoða þessa skýrslugerð sérstaklega.
Úrskurður sóttur til dómara án vitneskju KPMG
Þegar embætti héraðssaksóknara lagði kröfuna fram til héraðsdóms bað embættið um að úrskurður yrði kveðinn upp án þess að fulltrúar KPMG yrðu kvaddir fyrir dóm.
Á það féllst dómari, en lesa má í úrskurði héraðsdóms að það hafi verið mat embættis héraðssaksóknara að vitneskja um rannsóknaraðgerðina fyrirfram innan endurskoðunarfyrirtækisins gæti spillt fyrir rannsókn málsins.
Fram kemur að embætti héraðssaksóknara hafi meðal annars lagt fram þann rökstuðning að þrátt fyrir að enginn starfsmaður endurskoðunarfyrirtækisins væri sakborningur í málinu væri ekki vissa um hvort eitthvað viðskipta- eða hagsmunasamband væri enn á milli KPMG og Samherja. Í því samhengi þyrfti að hafa í huga stærð Samherja og víðtækar eignir og yfirráð félagsins í öðrum félögum í íslensku atvinnulífi og sömuleiðis tiltölulega fyrirferð KPMG sem þjónustuveitanda.
Einnig væri ekki unnt að útiloka að gögn og upplýsingar sem aflað yrði frá KPMG gætu leitt í ljós atriði sem beina myndu rannsókn að KPMG eða starfsmönnum þess síðar meiri. Rétt væri að gæta varúðar, vegna hagsmuna rannsóknarinnar.
Aðfinnslur í Landsrétti
Samherji reyndi að fá þessum úrskurði héraðsdóms hnekkt í Landsrétti, en það gekk ekki. Í úrskurði Landsréttar frá 28. janúar segir að ekki sé hægt að líta svo á að félög Samherja hafi verið aðilar að málinu í héraðsdómi. Því væri þeim ekki heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.
Í niðurstöðu Landsréttar segir að varnaraðilar njóti víðtæks réttar til þess að leggja fyrir dóm ágreining um lögmæti yfirstandandi rannsóknarathafna lögreglu eða ákærenda. Þessi leið sé hins vegar ekki fær, þar sem félög Samherja voru ekki aðilar málsins í héraðsdómi.
Dómarar í Landsrétti komu á framfæri athugasemdum við verklag héraðsdómara í niðurstöðu sinni og segja „aðfinnsluvert“ að héraðsdómari hafi ekki krafið héraðssaksóknara um rannsóknargögn málsins og gengið úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt áður en krafan var tekin til úrskurðar.