Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur gert athugasemd við að Arion banki hafi ekki sett sér stefnu um innra eftirlit. Bankinn segir að unnið sé að því að semja slíka stefnu, en að hún muni ekki breyta stefnu bankans í heild sinni.
Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki bera stjórnir þeirra ábyrgð á því að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits. Ríkisendurskoðun hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig slíku eftirliti skuli vera háttað, en það ætti meðal annars að tryggja að rekstur fyrirtækjanna sé skilvirkur og að lögum og reglum sé fylgt í starfsemi þeirra.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segist Arion banki vera með skilgreint innra eftirlit, sem væri skipt upp í þrjár varnarlínur. Þar gegndi regluvarsla, áhættustýring og innri endurskoðun mikilvægu hlutverki, sem og allt starfsfólk bankans.
Engin stefna og skipulagi ábótavant
Í nýlega birtum niðurstöðum úr könnunar- og matsferli á Arion banka gerði Fjármálaeftirlitið (FME) hins vegar athugasemd við að bankinn hefði ekki sett sér stefnu um innra eftirlit. Einnig gerði FME athugasemd um skipulag innra eftirlitsins, sem ekki er talið vera í samræmi við almenn viðmið Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.
Samkvæmt Arion banka tæki stefna um innra eftirlit á þáttum svo sem framtíðarsýn þess, þróun í samræmi við ytri breytingar og skilgreiningu á eigin viðmiðum. Bankinn hafi ekki mótað sér slíka stefnu, þótt allir þessi þættir liggi fyrir hjá bankanum. Unnið sé að því innan bankans að semja sér stefnu um innra eftirlit núna.
Aðspurður hvort slík stefnumótun muni hafa áhrif á heildarstefnu Arion banka svarar bankinn að svo sé ekki. Hins vegar muni stefna um innra eftirlit mótast af stefnu bankans.