Alls greiddu sjávarútvegsfyrirtæki landsins tæpa 4,8 milljarða króna í veiðigjöld vegna ársins 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fiskistofu í dag. Álagningin fyrir árið 2020 er um 1,8 milljörðum lægri en fyrir árið 2019 og 6,5 milljörðum lægri en hún var árið 2018, þegar álögð veiðigjöld námu 11,3 milljörðum króna.
Samkvæmt tilkynningu Fiskistofu er Brim hf. það útgerðarfélag sem greiðir hæst veiðigjöld fyrir árið 2020, eða 367 milljónir króna. Næst á lista eru Samherji Ísland ehf., Þorbjörn hf., og Skinney-Þinganes hf., en alls greiddu 16 stærstu gjaldendurnir um 3 milljarða króna í veiðigjöld á árinu 2020.
Alls greiddu 934 aðilar veiðigjöld árið 2020, langflestir yfir sumartímann vegna strandveiða. Í janúar 2020 voru um 150 gjaldendur sem greiddu veiðigjöld, en þau eru lögð á mánaðarlega.
Áætluð veiðigjöld 7,5 milljarðar árið 2021
Ný lög um veiðigjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns.
Samkvæmt þeim er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs og veiðigjöldin sem greidd voru í fyrra og þau sem fjallað er um hér byggja á afkomu ársins 2018 í greininni.
Áætluð veiðigjöld ársins 2021, sem byggja á afkomu sjávarútvegs árið 2019, eru áætluð um 7,5 milljarðar króna. Samkvæmt því sem fram kom í kynningu á Sjávarútvegsdeginum síðasta haust högnuðust íslensk sjávarútvegsfyrirtæki um 43 milljarða króna á árinu 2019.
Það er um 60 prósent meiri hagnaður en var af rekstri þeirra árið á undan þegar hann var 27 milljarðar króna. Alls nam hagnaður fyrirtækjanna 197 milljörðum króna á fimm ára tímabili, frá byrjun árs 2015 og út árið 2019. Á sama tímaskeiði greiddu félögin 43 milljarða króna í tekjuskatt.
Sjávarútvegsfyrirtækin í landinu áttu eigið fé upp á 297 milljarða króna í lok árs 2018. Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða þeirra um 376 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 10,3 milljarða króna árið 2019, en frá árinu 2010 höfðu þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hafði því vænkast um 479,2 milljarða króna frá hruni.