Íbúaráð Grafarvogs hefur dregið til baka tillögu sína um breytingu á póstnúmeri Bryggjuhverfis, sem lögð var fram í upphafi ársins. Málið mætti andstöðu á meðal íbúa í Bryggjuhverfi og þarfnast frekari umræðu.
Kjarninn sagði frá því fyrir tæpum mánuði að íbúaráðið hefði beint tillögu til borgarráðs um að óskað yrði eftir við því við póstnúmeranefnd Íslandspósts að Bryggjuhverfið fengið póstnúmerið 112, í stað þess að tilheyra enn póstnúmeri 110.
„Við tilheyrum Grafarvogi að öllu leyti,“ sagði Berglind Eyjólfsdóttir, íbúi í hverfinu og fulltrúi Samfylkingar í íbúaráði Grafarvogs þá við Kjarnann, innt eftir útskýringum á tillögunni.
Hún sagði um væri að ræða leiðréttingu til þess að eyða misskilningi sem stundum yrði um hvar íbúar hverfisins skuli sækja þjónustu.
Í fyrri tillögu íbúaráðsins sagði að í skipulagi Reykjavíkurborgar fylgdi Bryggjuhverfið Grafarvogi. Því væri „eðlilegast að hverfið fái sama póstnúmer og önnur hverfi í Grafarvogi“, sem er 112, en yrði ekki lengur með póstnúmerið 110, sem er oftast tengt við Árbæinn.
Ekki einhugur á meðal íbúa
Þetta féll hins vegar ekki alls staðar í kramið. Hið minnsta ekki hjá Bryggjuráði, íbúasamtökum Bryggjuhverfis, sem deildi frétt Kjarnans frá 11. janúar á Facebook-síðu sinni með orðunum: „Hvurslags endaleysa er þetta. Höfðinn er með póstnúmer 110 og við erum samkvæmt skipulagi hluti af því svæði.“
Einn íbúi í hverfinu bætti við í athugasemd: „Missti ég af þessari könnun ...hvar var hún auglýst..eru einhverjir sem ákveða fyrir alla????“
Tekið fyrir aðalfundi Bryggjuráðs
Í nýrri tillögu íbúaráðs Grafarvogs um afturköllun fyrri tillögu segir að miklar umræður hafi skapast um málið í Bryggjuhverfi og ákveðið hafi verið að taka málið fyrir á aðalfundi áðurnefnds Bryggjuráðs.
„Var niðurstaða þeirra fundar að óskað yrði eftir því við íbúaráð Grafarvogs að draga tillöguna til baka. Vakin var athygli á því að frekari umræðu væri þörf í hverfinu ef fara ætti í breytingar á póstnúmeri hverfisins. Vill því íbúaráð Grafarvogs verða við þessari beiðni íbúa og draga upphaflega tillögu um breytingu á póstnúmeri til baka,“ segir í nýrri tillögu íbúaráðs Grafarvogs, sem samþykkt var á fundi þess 3. febrúar.
Ekki er því útlit fyrir að Bryggjuhverfið færist úr póstnúmeri 110 og yfir í póstnúmer 112 á næstunni.