Rekstrarniðurstaða Íslandsbanka var þokkalega góð á síðasta ársfjórðungi, en bankinn skilaði tvöfalt meiri hagnaði heldur en á sama tímabili árið á undan, þrátt fyrir að minni munur hafi verið á inn- og útlánsvöxtum og meiri virðisrýrnun hafi orðið á útlánum bankans. Hagnaður síðasta árs var hins vegar nokkuð minni heldur en árið 2019, og gæti þar spilað inn mikil rýrnun á virði útlánasafns bankans.
Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri og ársreikningi Íslandsbanka sem voru birt á vef Kauphallarinnar fyrr í dag. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjörinu var 2,5 prósenta munur á inn- og útlánsvöxtum bankans í lok síðasta árs, sem er minni munur en á sama tímabili árið 2019. Útlán bankans voru hins vegar töluvert meiri í fyrra, svo vaxtatekjurnar voru svipaðar á báðum tímabilum.
Minni stjórnunarkostnaður og miklar fjármunatekjur
Stjórnunarkostnaður bankans var þó minni í fyrra, en samkvæmt bankanum er það vegna hagræðingaraðgerða síðustu tímabila og breytinga í rekstri vegna heimsfaraldursins. Þar að auki græddi bankinn tæpar 800 milljón króna af fjárfestingum sínum, en í tilkynningu bankans segir að sá hagnaður skýrist að hluta til af hagfelldum ástæðum á verðbréfamarkaði.
Minni hagnaður en árið 2019
Hagnaður ársins hjá Íslandsbanka eftir skatta var hins vegar 6,8 milljarðar og er það tæplega tveimur milljörðum krónum minni hagnaður heldur en árið 2019. Helsta ástæða þess er umfangsmikil virðisrýrnun bankans, en hún nam 8,8 milljörðum króna í fyrra miðað við 3,5 milljarða króna árið 2019.
Meiri vaxtatekjur en minni þóknanatekjur
Líkt og á fjórða ársfjórðungi vó mikil aukning í útlánum gegn minni vaxtamun milli ára og drógust því hreinar vaxtatekjur ekki saman. Þvert á móti jukust þær um 1,7 prósent milli ára, eða um rúman hálfan milljarð króna. Þóknanatekjur bankans minnkuðu hins vegar lítillega milli ára, en samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka má að mestu rekja hana til minni kortaveltu í kjölfar COVID-19.
15,6 prósent lánasafnsins í útlánahættu
Vegna faraldursins metur bankinn það svo að stór hluti eigin lánasafns, eða 15,6 prósent, sé í svokallaðri útlánaáhættu, þar sem óvíst er hvort óvíst er hvort það takist að greiða þau aftur. Til samanburðar voru einungis 2,6 prósent lánasafnsins í útlánaáhættu árið 2019.