Í nýrri umsögn Landsvirkjunar um þingsályktunartillögu 3. áfanga rammaáætlunar er sjónum sérstaklega beint að tveimur virkjanakostum sem fyrirtækið er ósátt við flokkun á; Kjalölduveitu í efri hluta Þjórsár og Búrfellslundar, fyrirhuguðu vindorkuveri sem útfært er nú með töluvert öðrum hætti en þegar verkefnisstjórn áætlunarinnar tók kostinn til umfjöllunar. Vill Landsvirkjun að Kjalölduveita verði færð úr verndarflokki í biðflokk og Búrfellslundur úr biðflokki í orkunýtingarflokk.
Verkefnisstjórn rammaáætlunar komst að því á sínum tíma að Kjalölduveita væri í raun breytt útfærsla á Norðlingaölduveitu, og að sama vatnasvið, Þjórsárver, yrði fyrir áhrifum. Ákveðið var að setja Norðlingaölduveitu í verndarflokk árið 2013.
Landsvirkjun þykir ljóst að við framkvæmd rammaáætlunar hafi ekki verið farið eftir lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Tiltekur fyrirtækið í umsögn sinni í þessu sambandi ófullnægjandi söfnun gagna til röðunar á virkjunarkostum, skort á lagalegri heimild tilverndunar heilla vatnasviða þegar virkjanakostir fara í verndarflokk, auk þeirrar ákvörðunar verkefnisstjórnar „að ganga framhjá valdsviði Orkustofnunar og ákvarða sjálf hvaða virkjunarkostir eru teknir til umfjöllunar“.
Umsagnafrestur um þingsályktunartillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar rann út í fyrradg en hún hefur nú verið lögð fyrir Aþingi í þriðja sinn frá árinu 2016. Í áætluninni er virkjanakostum raðað í verndar-, nýtingar- eða biðflokk. Verkefnisstjórn 3. áfanga skilaði lokaskýrslu sinni um flokkun 82 virkjunarkosta til umhverfisráðherra í ágúst árið 2016. Ráðherrann, Sigrún Magnúsdóttir, lagði í kjölfarið fram þingsályktunartillögu í fullu samræmi við tillögur verkefnisstjórnarinnar. Tillagan var ekki afgreidd í ráðherratíð Sigrúnar og ekki heldur í tíð Bjartar Ólafsdóttur.
Tillagan hefur nú verið lögð fram í þriðja sinn og enn í óbreyttri mynd – tæplega fjórum og hálfu ári eftir að verkefnissstjórn skilaði lokaskýrslu sinni til ráðherra. Að þessu sinni er það Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sem leggur hana fram en samkvæmt henni fara átján virkjanakostir í orkunýtingarflokk, þar af aðeins einn kostur í vindorku; Blöndulundur. Samkvæmt tillögunni eru 26 virkjanakostir í verndarflokki.
Segir sáttina ekki hafa náðst
Í umsögn Landsvirkjunar segir að sú sátt sem vonast var til að myndi nást um nýtingu og verndun landsvæða hafi ekki orðið að veruleika. „Þær miklu tafir sem orðið hafa á samþykkt 3. áfanga rammaáætlunarinnar á Alþingi, síðan hún var fyrst lögð fram árið 2016, sýnir grundvallargalla á löggjöfinni sem ekki er hægt að líta fram hjá.“ Það er því mat Landsvirkjunar að nauðsynlegt sé að taka ferli rammaáætlunar „til gagngerrar endurskoðunar“.
Fyrirtækið telur að mat verkefnisstjórnar á áhrifum virkjanakosta hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við lög. Bendir fyrirtækið m.a. á að ekki hafi verið tekið tillit til niðurstaðna allra faghópa rammaáætlunar áður en flokkunin fór fram líkt og lög kveði á um. Þá telur Landsvirkjun afmörkun landsvæða ekki í samræmi við lög og að verkefnisstjórn hafi ekki verið heimilt „að setja heil vatnasvið í verndarflokk“ á grundvelli niðurstöðu tveggja af fjórum faghópum og „setja síðan alla virkjunarkosti á viðkomandi vatnasviði í verndarflokk“. Óskar Landsvirkjun því eftir endurskoðun á afmörkun landsvæða.
Það eru einkum flokkun tveggja virkjanakosta sem Landsvirkjun gagnrýnir sérstaklega í þessu sambandi; Kjalölduveitu, sem yrði í efri hluta Þjórsár, og Búrfellslundar. Fyrirtækið segir að þrátt fyrir að það sé Orkustofnun sem lögum samkvæmt ákveði hvaða kostir fái umfjöllun hafi verkefnisstjórnin einhliða ákveðið að ekki skildi fjallað um Kjalölduveitu. Honum hafi verið „raðað beint í verndarflokk án umfjöllunar faghópa. Með því má halda því fram að verkefnisstjórn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun sem hún er ekki bær að lögum til að taka“.
Breytt útfærsla Norðingaölduveitu
Kjalölduveitu er raðað í verndarflokk verkefnisstjórnarinnar með eftirfarandi rökstuðningi: „Að fengnu áliti faghópa 1 og 2 taldi verkefnisstjórn að um væri að ræða breytta útfærslu Norðlingaölduveitu, að sama vatnasvið, Þjórsárver, sé undir í báðum tilvikum og að virkjunarframkvæmdir á þessu landsvæði muni hafa áhrif sem skerði verndargildi svæðisins. Ákvörðun um að setja Norðlingaölduveitu í verndarflokk í verndar- og orkunýtingaráætlun 2013 byggðist fyrst og fremst á sérstöðu og verndargildi svæðisins.
Þrátt fyrir að nafn virkjunarkostsins sé annað, vatnsborð lónsins sé lægra, lónið minna og mannvirki neðar í farveginum hafa framkvæmdirnar áhrif á sama landsvæði og því hefur þessi breytta útfærsla virkjunarkostsins ekki áhrif á þessar grunnforsendur flokkunarinnar.“
Landsvirkjun telur hins vegar að ákvörðun verkefnisstjórnarinnar hafi verið ólögmæt og óskar eftir að Kjalölduveitu verði raðað í biðflokk, „þannig að hægt verði að leggja virkjunarkostinn fyrir faghópa með lögformlegum hætti“.
Segir í umsögn fyrirtækisins að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum árið 2017 undirstriki þann „grundvallarmun sem er á Kjalölduveitu og Norðlingaölduveitu“, en mannvirki og lón Kjalölduveitu eru „alfarið utan friðlandsmarkanna“.
Búrfellslundur allt annar í dag
Hinn virkjanakosturinn sem Landsvirkjun fjallar sérstaklega um í umsögn sinni er vindorkugarðurinn Búrfellslundur. Samkvæmt þingsályktunartillögunni er hann flokkaður í biðflokk.
Ný útfærsla hefur verið gerð á hinum fyrirhugaða Búrfellslundi að teknu tilliti til athugasemda í umfjöllun 3. áfanga rammaáætlunar sem og umhverfismati sem lauk árið 2016. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er nú staðsett enn nær orkumannvirkjum en áður, innan stærsta orkuvinnslusvæðis landsins, þar sem núverandi háspennulínur liggja þvert yfir svæðið, bendir Landsvirkjun á. Jafnframt hafi verið dregið úr umfangi verkefnisins, bæði í stærð framkvæmdasvæðis (úr 33 km2 í 18 km2) og í uppsettu afli (úr 200 MW í 120 MW).
Fjölda vindmylla hefur sömuleiðis verið fækkað úr 67 niður í allt að 30. Með þessu segist Landsvirkjun hafa brugðist við áliti Skipulagsstofnunar varðandi umfangsminni uppbyggingu og að afraksturinn sé töluvert breytt ásýnd með minni sjónrænum áhrifum.
Í ljósi þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á verkefninu og tafa sem orðið hafa á afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar, telur Landsvirkjun eðlilegt að horfa til nýrrar útfærslu Búrfellslundar í stað eldri útfærslu þegar 3. áfangi rammaáætlunar er tekinn til umræðu á Alþingi. Landsvirkjun óskar eftir því að flokkun Búrfellslundar verði breytt þannig að virkjunarkosturinn raðist í nýtingarflokk í stað biðflokks á grundvelli nýrrar útfærslu sem er til umfjöllunar í 4. áfanga rammaáætlunar.