Björgólfur Jóhannsson lætur af störfum forstjóra Samherja hf. Þetta kemur fram á vef Samherja í dag. Björgólfur hefur gegnt starfinu einn frá nóvember 2019 en frá mars síðastliðnum samhliða Þorsteini Má Baldvinssyni. Þorsteinn Már verður nú á ný eini forstjóri félagsins, að því er fram kemur hjá Samherja.
Samkvæmt Samherja hefur Björgólfur verið kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú „nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja. Mun hann stjórna skráningu og formlegri innleiðingu slíkra reglna ásamt öðrum ráðgjafastörfum fyrir Samherja eftir því sem tilefni verður til.“
Þann 12. nóvember 2019 birtist umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Tveimur dögum síðar tilkynnti Samherji að Þorsteinn Már, sem er aðaleigandi Samherja ásamt frænda sínum Kristjáni Vilhelmssyni og fyrrverandi eiginkonu sinni Helgu S. Guðmundsdóttur, hefði stigið tímabundið til hliðar sem forstjóri og að Björgólfur tæki við, sömuleiðis tímabundið.
Í tilkynningunni var haft eftir Eiríki S. Jóhannessyni, stjórnarformanni Samherja, að þetta skref væri stigið til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknar norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á ætluðum brotum Samherja. „Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur.“
Reiknaði ekki með því að sitja í forstjórastólnum lengi
Daginn sem Björgólfur tók við starfi forstjóra Samherja var tilkynnt að hann myndi tímabundið láta af störfum sem stjórnarformaður og stjórnarmaður hjá Íslandsstofu og sagði hann í kjölfarið að hann reiknaði ekki með því að sitja í forstjórastólnum lengi. „Verkefnið er skýrt og ég vona að málin leysist á sem skemmstum tíma þannig að þessi tímabundna ráðning vari ekki mjög lengi.“
Björgólfur segist í tilkynningu á vef Samherja vera stoltur af því að stjórn Samherja skuli hafa leitað til hans. „Af minni hálfu kom aldrei annað til greina en að verða því kalli. Ég vil þakka öllu starfsfólki Samherja fyrir samstarfið. Þar er valinn maður í hverju rúmi.“