Best væri að halda hóflegum en stöðugum sóttvörnum innan lands þangað til þjóðin hefur verið bólusett gegn COVID-19, að mati Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors í HÍ. Samkvæmt honum er hætta á að of mikið verði slakað á vörnum innan lands vegna löngunar stjórnmálamanna til vinsælda.
Þetta skrifaði Gylfi í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út síðasta föstudag, en í henni fór hann yfir mikilvægi staðfestu stjórnmálamanna í yfirstandandi faraldri.
Sóttvarnir eins og skattur
Gylfi segir að hægt sé að líta á sóttvarnaraðgerðir sem ákveðna tegund af skattheimtu í innlenda efnahagsstarfsemi, þar sem þær koma sumum illa en bæta almannahag. Skattar auka kostnað við viðskipti, neytendur greiða hærra verð, fyrirtæki fá minni tekjur og umfang viðskipta dregst saman. Þessi neikvæðu áhrif verði meiri eftir því sem skattarnir eru hærri.
Kostnaðurinn sem fylgir skattahækkunum segir Gylfi vera ástæðu þess að hagkvæmt sé að hafa skattaprósentur stöðugar yfir tíma. Það sé ekki hagkvæmt að hafa lága skatta eitt árið og svo háa skatta næsta árið, þar sem háu skattarnir drægju of mikið úr efnahagsstarfsemi.
Með sömu rökum segir Gylfi að hægt sé að halda því fram að best sé að hafa hóflegar en sem stöðugastar sóttvarnir innanlands þangað til þjóðin hefur verið bólusett gegn veirunni. Stöðugleiki hjálpi einstaklingum og fyrirtækjum að aðlaga sig að þeim reglum sem í gildi eru, en lítill fyrirsjáanleiki með aðgerðir framtíðar bitnar illa á efnahagslífinu.
Ásókn í vinsældir skapi hættu
Hins vegar er hætta á að stjórnmálamenn slaki of hratt á sóttvörnum innanlands, þar sem slíkar aðgerðir gætu verið vinsælar meðal almennings, að mati Gylfa. Hann segir þessa hættu vera ástæðu þess að stjórnvöld hafi falið ókjörnum embættismönnum óvinsælar ákvarðanir sem varða þjóðarhag, til dæmis um vexti og peningastefnu.
„Stjórnmálamenn sem grípa til óvinsælla en nauðsynlegra aðgerða sem síðar kemur í ljós að hafi verið farsælar fá góða dóma sögunnar,“ bætir Gylfi þó við. „Hið sama á við um embættismenn sem slá í borðið og gera það sem rétt er og einstaklinga í samfélaginu sem sýna hugrekki. Þeir sem fara með straumnum gleymast með straumnum.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér