Karlmanni á fertugsaldri var ráðinn bani skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi í austurborginni. Tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 23:57 í gærkvöldi að því er segir í tilkynningu sem lögreglan sendi fjölmiðlum nú síðdegis. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni fundust áverkar eftir skotvopn á líki mannsins. Þar segir enn fremur að einn sé í haldi lögreglunnar vegna málsins og að rannsókn sé í algjörum forgangi hjá embættinu.
Í annarri tilkynningu sem lögreglan sendi fjölmiðlum skömmu fyrir hádegi í dag var sagt frá því að lögreglan hefði verið kölluð að húsi í austurborginni um miðnætti í gærkvöldi vegna tilkynningar um slasaðan karlmann sem var þar utan við húsið. „Endurlífgunartilraunir hófust strax á vettvangi og í kjölfarið var maðurinn fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna þangað. Maðurinn var á fertugsaldri,“ segir í tilkynningunni.
Í frétt Vísis segir að karlmaður á fertugsaldri hafi verið handtekinn í Garðabæ vegna aðildar að málinu. Þar segir einnig að ekki hafi verið unnt að fá viðtal við lögreglu, enda málið á viðkvæmu stigi. Samkvæmt tilkynningum frá lögreglunni verða frekari upplýsingar sendar fjölmiðlum þegar rannsókn málsins vindur fram.