Landsvirkjun og Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, hafa náð samkomulagi um að breyta raforkusamningi milli fyrirtækjanna sem gerður var árið 2010. Samhliða þessu hefur Rio Tinto samþykkt að draga kvörtun sína til Samkeppniseftirlitsins varðandi orkusölu til álversins, sem lögð var fram í fyrrasumar, tilbaka.
Í tilkynningu frá báðum fyrirtækjunum kemur fram að grunnur þess verðs sem Rio Tinto greiðir fyrir raforku frá Landsvirkjun muni breytast. Hann verður áfram bundinn Bandaríkjadal og tengdur bandarískri vísitölu neysluverðs (CPI), en verður nú að litlum hluta einnig tengdur álverði. Sú tenging var afnumin í samningnum 2010.
Samningurinn mun áfram kveða á um sölu á 390 MW eða 3.415 GWst á ári og gildir til ársins 2036. Samkomulagið er viðauki við gildandi samning frá 2010. Trúnaðarákvæði þess samnings eru enn í gildi og samningurinn verður því ekki opinberaður að svo stöddu.
Í júlí 2020 sendi Rio Tinto formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtækið taldi Landsvirkjun hafa yfirburðastöðu gagnvart álverinu. Þar kom fram að ef Landsvirkjun myndi ekki láta af „skaðlegri háttsemi sinni“ myndi Rio Tinto segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og loka álverinu.
Nú virðast öll slík lokunaráform hafa verið sett á hilluna. Í fréttatilkynningunni sem send var út í dag er haft eftir Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi, að samningurinn við Landsvirkjun væri ánægjuleg tíðindi „sem eyða óvissu um starfsemina í Straumsvík, um leið og samkeppnishæfni okkar batnar.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að niðurstaðan sé báðum aðilum í hag. „Markmið Landsvirkjunar er, líkt og áður, að tryggja fyrirsjáanlegar tekjur um leið og við tökum tillit til breytinga á alþjóðlegum mörkuðum og á þörfum viðskiptavina okkar.“