Lögreglustjórinn á Suðurlandi staðfestir, í bréfi sem Kjarninn hefur undir höndum, að samkvæmt gögnum máls er varðar meintan veiðiþjófnaðar og/eða ólöglega netaveiði í Holtsá sé Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hvorki skráður sem sakborningur né vitni í tengslum við þetta mál.
Fréttablaðið birti í morgun frétt á forsíðu blaðsins þar sem fram kemur að lögð hafi verið fram kæra vegna veiðiþjófnaðar á landi Seðlabankans og að Ragnar Þór hafi verið í hópi þeirra sem var staðinn að ólöglegu netalögninni.
Þess krafist að fréttin verði dregin til baka og Ragnar Þór beðinn afsökunar
Lögmaður Ragnars Þórs hefur enn fremur sent bréf til fjölmiðlafyrirtækisins Torgs ehf., Jóns Þórissonar, ritstjóra Fréttablaðsins, Þorbjargar Marinósdóttur, ritstjóra DV, og Þorsteins Friðriks Halldórssonar blaðamanns þar sem þess er krafist að frétt Fréttablaðsins verði dregin til baka og Ragnar Þór beðinn afsökunar.
„Í fréttinni kemur m.a. fram að veiðiþjófnaður á landi Seðlabanka Íslands á Suðurlandi hafi verið kærður til lögreglu fyrr í vetur og að samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafi Ragnar Þór verið í hópi þriggja manna sem staðinn var að ólöglegri netalögn. Í fréttinni kemur einnig fram að Lögreglan á Suðurlandi staðfesti að kæra hafi borist embættinu vegna ólöglegrar netalagnar í Holtsá sem fellur í Skaftá, þann 24. október sl. Þá segir í fréttinni að rannsókn málsins sé lokið og ákvörðun um ákæru sé nú í höndum ákærusviðs,“ segir í bréfinu.
Þá kemur fram að Ragnar Þór sé ranglega bendlaður við málið í umfjölluninni. „Með fréttinni hefur fjölmiðillinn brotið gegn frumskyldu sinni sem mælt er fyrir um í siðareglum blaðamanna um að blaðamenn skuli vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu eins og kostur er. Einnig ákvæði fjölmiðlalaga um að fjölmiðill gæti að því að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi, sbr. t.d. 26. gr. laganna.“
Þess er krafist að allir miðlar Torgs ehf. fjarlægi framangreindar umfjallanir, leiðrétti og dragi til baka fréttir sínar um að Ragnar Þór hafi verið staðinn að hinni ólöglegri netalögn og birti slíka leiðréttingu með sama hætti og hinar röngu fréttir voru birtar.
Þess er jafnframt krafist að umfjallanir verði fjarlægðar tafarlaust og að leiðrétting birtist á vefmiðlum í dag, 16. febrúar 2021, og í prentaðri útgáfu Fréttablaðsins á morgun, 17. febrúar 2021. Jafnframt er þess krafist Ragnar Þór verði beðinn afsökunar á umfjölluninni.
Í bréfi lögmannsins segir að verði ekki orðið við framangreindum kröfum muni Ragnar Þór neyðast til þess að láta reyna á framangreind ákvæði um skyldur blaðamanna og fjölmiðla.
Ragnar Þór sagði í samtali við Kjarnann í morgun að fréttaflutningurinn hefði verið „sjokkerandi“. Þó teldi hann að flestir sæju í gegnum þetta. „Það verður allt gert til að bola mér út úr þessu embætti. Ég held að þetta sé bara byrjunin.“