„Ég held að flestir sjái nú í gegnum þetta en þetta er sá veruleiki sem við búum við. Það verður allt gert til að bola mér út úr þessu embætti. Ég held að þetta sé bara byrjunin.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Kjarnann þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við frétt á forsíðu Fréttablaðsins í morgun þar sem fram kemur að lögð hafi verið fram kæra vegna veiðiþjófnaðar á landi Seðlabankans og að hann hafi verið í hópi þeirra sem var staðinn að ólöglegu netalögninni.
Ragnar segir í samtali við Kjarnann að hann hafi verið gestkomandi á svæðinu og að einhver annar hafi verið búinn að leggja þessi net sem um ræðir. „Fréttablaðið hefði getað fengið það staðfest hverjir lögðu netin ef þeir hefðu hringt í landeigandann. Deilurnar virðast snúast um hvað má og hvað má ekki á svæðinu og þá er það væntanlega landeigandans að svara fyrir það, sem ber ábyrgð á þessu neti. Hann er sá eini sem getur svarað fyrir það. Ég lagði ekki þessi net og þar af leiðandi get ég ekki verið málsaðili.“
Segist hann sömuleiðis hafa fengið yfirlýsingu frá lögreglustjóranum á Suðurlandi þar sem staðfest sé að hann sé hvorki skráður sem sakborningur né vitni í tengslum við málið.
Fréttaflutningur ekki tilviljun
Varðandi fréttaflutninginn sjálfan segir Ragnar Þór hann vera „sjokkerandi“.
„Að slá svona máli upp á forsíðu þegar ég er með sms sem ég sendi á fréttamanninn sem hringir í mig vegna fréttarinnar þar sem ég bendi honum á að tala við landareigandann til að fá úr því skorið hver lagði netin. Það virðist algjörlega hafa verið hunsað og sömuleiðis því slegið fram eins og það sé kæra á hendur mér fyrir þjófnað.“
Ragnar Þór telur að fréttaflutningurinn sé ekki tilviljun. „Það eru kosningar framundan í VR og hefur eigandi Fréttablaðsins og Torgs, Helgi Magnússon fjárfestir, haft horn í síðu verkalýðshreyfingarinnar. Honum var bolað út úr stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna meðal annars af verkalýðshreyfingunni fyrir það að vera augljóslega báðum megin borðs sem fjárfestir og takandi ákvarðanir um fjárfestingar lífeyrissjóðsins. Sko, án þess að vera með einhverjar samsæriskenningar þá óneitanlega læðist að manni sá grunur að tímasetningin sé alveg sérstök. Sérstaklega vegna þess að þarna er verið að vísa í mál sem gerðist síðastliðið haust þar sem ég var gestkomandi á Holti ásamt mörgum fleirum.“
Helga Guðrún Jónasdóttir bauð sig fram til embættis formanns VR gegn Ragnari Þór í byrjun febrúar. Allsherjaratkvæðagreiðsla í félaginu hefst þann 8. mars næstkomandi og lýkur á hádegi þann 12. mars.
Ragnar Þór segir að lögmenn hans séu komnir í málið. „Það eru ekki nema einhverjir klukkutímar síðan þessu var slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins en það er alveg ljóst að við verðum að svara þessu,“ segir hann og bætir því við að ekki hafi verið tekið ákvörðun um framhaldið.