Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ræddu frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um hálendisþjóðgarð í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag. Ráðherrann sagði að málið væri af þeirri stærðargráðu að henni fyndist ekki óeðlilegt að meðgöngutíminn væri langur og að það tæki jafnvel lengri tíma en plön gerðu ráð fyrir.
Hanna Katrín hóf fyrirspurn sína á því að segja að eðlilega létu fjölmargir sig málið varða, enda snerist þetta um risahagsmunamál landsmanna allra í nútíð og framtíð.
„Það hefur verið mikið talað um sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga og náttúruverndarsjónarmið í tengslum við frumvarpið en það hefur, að minnsta kosti framan af, farið minna fyrir umræðu um þau áhrif sem frumvarpið mun hafa á ferðaþjónustuna okkar,“ sagði þingmaðurinn.
Spurði hvað útskýrði mótstöðuna
Sagði hún að þau í Viðreisn hefðu alla tíð talað fyrir mikilvægi þess að auðlindir landsins væru nýttar með ábyrgum hætti samfara öflugri náttúruvernd.
„Við viljum vernda hálendið samfara þessu sjónarmiði fyrir fólkið en ekki fyrir fólkinu. Ég held að við séum býsna mörg þar. En það verður samt að segjast eins og er að þær hafa verið margar og sterkar raddirnar úr röðum ferðaþjónustuaðila sem telja málið, eins og það er lagt fram í frumvarpinu, vega að atvinnugreininni. Nú hef ég eins og fjölmargir aðrir Íslendingar verið ferðalangur í þjóðgörðum erlendis. Ég hef notið þess mjög. Þar hafa þessir þættir farið saman samkvæmt því sem ég hef alla vega upplifað og best veit, það er náttúruvernd og upplifun ferðafólks samhliða atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Ég hefði haldið að þetta væri happafengur fyrir ferðaþjónustuna okkar en það er eitthvað í þessu máli sem virðist standa í mjög mörgum ferðaþjónustuaðilum.“
Benti Hanna Katrín á að þetta mál, stofnun hálendisþjóðgarðs, væri í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, höfuðstefnuplaggi hverrar ríkisstjórnar. Spurði hún Þórdísi Kolbrúnu hvers vegna hún teldi að mótstaðan væri með þessum hætti nú þegar vel er liðið á síðasta ár kjörtímabilsins.
„Hefði samráð og samvinna milli þessara ráðuneyta, ráðuneytis umhverfismála og ráðuneytis ferðaþjónustu, mátt vera annað og meira en raun hefur borið vitni? Hvað er það sem gerir að verkum að ferðaþjónustuaðilar eru jafn ósáttir og þeir eru ef marka má þessa miklu umræðu og sterku gagnrýnisraddir úr röðum þeirra? Og að lokum, herra forseti: Hvað telur hæstv. ráðherra að þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarð muni gera fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi?“ spurði hún.
Hálendisþjóðgarður mjög stór ákvörðun
Þórdís Kolbrún svaraði og sagði að auðvitað ótal mörg sjónarmið sem heyrðu þarna undir. „Háttvirtur þingmaður fókuserar á ferðaþjónustuna þannig að ég ætla að halda mig við það þrátt fyrir að einnig væri hægt að eyða dágóðri stund í að tala um þetta út frá orkunýtingu. Þetta mál er af þeirri stærðargráðu að mér finnst ekki óeðlilegt að meðgöngutíminn sé langur og að það taki jafnvel lengri tíma en plön gera ráð fyrir. Þetta er risastórt svæði. Þetta er mjög stór ákvörðun. Þetta er mikið samtal við fjölda sveitarfélaga, fjölda félagasamtaka, fjölda fyrirtækja og annarra sem nýta þetta stóra svæði í dag, orkufyrirtækja og annarra.“
Sagðist hún hafa heyrt í mörgum ferðaþjónustuaðilum sem væru „svo sem áfram um málið“, og í öðrum sem væru það alls ekki. „Svo er kannski bara stór hluti sem veit ekki alveg hvernig honum á að líða með það, finnst vanta frekari svör um hvað þetta þýðir fyrir hann og fyrir rekstur hans. Við eigum nú þegar mjög mikið verk fyrir höndum almennt þegar kemur að stýringu, sérleyfum, úthlutunum á takmörkuðum gæðum, til að mynda bara í Þingvallaþjóðgarði, Vatnajökulsþjóðgarði og annars staðar þar sem við erum nú þegar með þjóðgarða eða svæði sem eru í eigu ríkisins.“
Telur hún frumvarpið vera mjög mikilvægt mál. „Það helst í hendur við hvað það þýðir að búa til þjóðgarð. Vatnajökulsþjóðgarður stendur frammi fyrir stóru verkefni í úthlutunum. Komið hefur upp þegar fyrirtækin ætla að taka einhver skref að það hefur verið umdeilt og þau hafa dregið það til baka. En ég myndi halda, og ég tel, að fyrirtækjum finnist skorta samráð, skorta skýrari svör um hvað þetta þýðir fyrir þau. Svo er alltaf spurning hvernig fólk upplifir þetta jafnvægi sem þarf að vera til staðar á milli verndarsjónarmiða og nýtingarsjónarmiða í þjóðgarðinum. Þær spurningar og mögulega einhver tortryggni gagnvart kerfinu snúast, held ég, að hluta til um það. Svo ef maður setur það í samhengi við hvað við eigum eftir að gera í uppbyggingu, úthlutunum og öðru slíku nú þegar, óháð hálendisþjóðgarði, þá er hægt að segja: Eigum við ekki nóg eftir þrátt fyrir að bíða örlítið með þjóðgarðinn?“
Ferðaþjónustan í sviðsljósinu núna
Hanna Katrín kom aftur í pontu og sagðist átta sig fyllilega á því að það væru fleiri verkefni á borði ráðherra sem tengjast hálendisþjóðgarðinum, eins og orkumál, og yrðu þau án nokkurs vafa rædd síðar.
„En ferðaþjónustan er í svolítið í sviðsljósinu núna, ekki síst vegna þeirra erfiðleika sem greinin á við að etja vegna COVID. Þegar upp er staðið er hægt að skipta þessu í tvennt, það er mótstaða við frumvarpið af því að menn hafa ekki haft tíma til að kynna sér það eða það er mótstaða við frumvarpið af því að menn segja að það þurfi að breyta því á einhvern hátt. Það er eiginlega það sem mig langar til að reyna að fá fram hjá hæstvirtu ráðherra, varðandi þessa tilteknu atvinnugrein, ferðaþjónustuna: Hver er óskastaðan fyrir framhaldið?“ spurði hún og bætti því við að þær væru líklegast sammála um að þjóðgarður á hálendi Íslands gæti orðið gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna.
„En snýst þetta þá um það að við þurfum bara lengri tíma til að kynna þetta frumvarp fyrir aðilunum? Eða snýst þetta um það að það þarf að laga þetta frumvarp að einhverju leyti betur að ferðaþjónustunni og þar með að aðgengi fólks að hálendinu?“ spurði hún að lokum.
„Ég held að þetta þurfi tíma“
Þórdís Kolbrún svaraði aftur og sagði að almennt sæi hún mikil tækifæri í því fyrir íslenska ferðaþjónustu að hálendið væri rammað inn og ef ákvörðun yrði tekin um þjóðgarð þar. Hún væri þeirrar skoðunar.
„Í því felast mikil tækifæri en það skiptir auðvitað öllu máli hvernig það er gert og hvaða sjónarmið vega þyngst í því. Það er mín persónulega skoðun að mér fyndist allt í lagi að hugsa, í ljósi umræðu um málið, hvort það sé möguleiki að taka fleiri skref en smærri, sem mér finnst líka bara í anda þess að tala um þjóðgarð. Það að koma á fót svona stórum þjóðgarði, svona stórum hluta af landinu, þarf auðvitað að vera í sátt og það er verkefni okkar að vinna að því. Það er erfitt að koma á fót risastórum þjóðgarði ef mjög takmörkuð sátt ríkir um það. Ég ætla ekki að fullyrða hvernig málin þróast í þeim efnum en þessi sátt þarf að vera til staðar. Ég held að þetta þurfi tíma. Ég er sammála því að það eru margir sem hafa ákveðnar hugmyndir um þjóðgarðinn, vantar svörin og vantar kannski frekari tíma til að kynna sér það. Það er líka partur af þeim meðgöngutíma sem ég er að tala um af því að ég held að hugsunin um þjóðgarð á hálendinu sé góð og í því felist tækifæri fyrir ferðaþjónustu.“