Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram fyrirspurn til félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um hvenær von sé á fjölskyldunum frá Lesbos, flóttafólki sem ríkisstjórnin samþykkti í september á síðasta ári að Ísland myndi taka á móti.
Þetta kom fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Rósu Bjarkar í gær.
Kjarninn greindi frá því í gær að enginn kvótaflóttamaður hefði komið hingað til lands á vegum stjórnvalda í fyrra. Til stóð að um 100 manns kæmu og segir í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans að unnið sé „hörðum höndum að því að taka á móti hópnum á fyrri hluta þessa árs“.
Rósa Björk bendir á í stöðuuppfærslu sinni að fimm mánuðir séu liðnir frá því að ríkisstjórn Íslands samþykkti að Ísland myndi taka á móti flóttafólki frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu eftir hræðilegan bruna í flóttamannabúðunum Moria sem eyðilögðust í eldsvoða í september 2020.
Eins og kom fram í frétt Kjarnans var um allt að 15 manns að ræða, við viðbótar við þau 85 sem áttu að koma á vegum stjórnvalda.
„Ekkert hefur meira heyrst um málið, nú 5 mánuðum síðar ...“ skrifar Rósa Björk og bætir því við að Þýskaland hafi strax tekið á móti 1.200 manns í september 2020 úr Moria-búðunum og að Portúgal, Frakkland og fleiri Evrópulönd hefðu brugðust strax við.