Franska verkfræðifyrirtækið Artelia Group mun leiða hönnunarteymi fyrstu lotu Borgarlínunnar í samstarfi við dönsku verkfræðistofuna MOE, íslensku verkfræðistofuna Hnit, dönsku arkitektastofuna Gottlieb Paludan og hina íslensku Yrki arkitekta. Niðurstöður hönnunarútboðs Borgarlínunnar voru kynntar í gær.
Ráðist var í útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu 7. maí í fyrra og tilboð opnuð þann 8. júní, en alls bárust tilboð frá átta teymum. Sjá má útboðsskilmálana í stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Þrjú teymi komust áfram á næsta stig útboðsferlisins, en auk teymisins sem varð á endanum hlutskarpast var um að ræða teymi sem íslenska verkfræðistofan Efla leiddi í samstarfi við danska og breska aðila og teymi sem sænska verkfræðistofan Sweco leiddi, en í því voru íslensku fyrirtækin Verkís og Gláma Kím arkitekar.
Hæfni vóg þyngra en verð
Þessi þrjú teymi fóru í samningaviðræður og skiluðu svo aftur tilboðum í haust. Að endingu varð teymið sem Artelia Group leiðir hlutskarpast, en samkvæmt svari Borgarlínu við fyrirspurn Kjarnans voru teymin þrjú metin á grundvelli hæfni og verðs, þar sem hæfnin vóg 70 prósent og verðið 30 prósent.
Hrafnkell Á. Proppé forstöðumaður verkefnastofu Borgarlínu segir við Kjarnann að það sé ekki óalgengt að hæfni vegi 60-80 prósent í útboðum sem þessum á móti verðinu. Verðið sé hins vegar langstærsti einstaki þátturinn, á meðan að hæfnin sé metin í mörgum einstökum liðum.
Í tilkynningu á vef Borgarlínu segir að Artelia Group, sem er með höfuðstöðvar sínar í Frakkland en starfsemi í 40 löndum og yfir 6.100 starfsmenn á heimsvísu, hafi mikla reynslu og þekkingu af hraðvagnakerfum eins og Borgarlínan verður.
Þar segir að fyrirtækið hafi hannað yfir 175 kílómetra af hraðvagnaleiðum og 255 kílómetra af léttlestarkerfum víða um veröld, meðal annars Pau BRT-kerfið í Pýraneafjöllunum og hraðvagnakerfi í borginni Lens í Norður-Frakklandi.
Danska verkfræðistofan MOE sá svo um grunn- og forhönnun fyrir léttlestarkerfið í Kaupmannahöfn og arkitektastofan Gottlieb Paludan Architects er í tilkynningu Borgarlínu sögð þekkt fyrir að hanna lausnir fyrir innviði á borð við léttlestir, hraðvagnakerfi og umferðarmiðstöðvar víða um heim.
„Þá eru Yrki arkitektar og Hnit lykilaðilar í teyminu og með nauðsynlega staðbundna þekkingu. Hnit verkfræðistofa sérhæfir sig í alhliða verkfræðiráðgjöf á sviði mannvirkjagerðar og Yrki arkitektar bjóða upp á alhliða þjónustu á sviði arkitektúrs og skipulags,“ segir í tilkynningu Borgarlínu.
Verkefni hönnunarteymisins er að taka við þeim tillögum sem koma fram í frumdragaskýrslu Borgarlínu sem kom út í upphafi þessa mánaðar og útfæra verkefnið nánar fram að framkvæmdum, í samstarfi við Vegagerðina.