Í nýframlögðu frumvarpi Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um breytingu á lögum um velferð dýra, er lagt til að svokallað blóðmerahald verði bannað og þar með bannað að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.
Í frumvarpi Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins, um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, er lagt til að kveðið verði á um afdráttarlaust bann við ónauðsynlegum aðgerðum og rannsóknum á börnum í stað hins matskennda núverandi orðalags að „hlífa beri börnum“ við slíku.
Í greinargerð með frumvarpinu sem Inga hefur lagt fram er bent á að lög um velferð dýra hafi það að markmiði að vernda dýr gegn ómannúðlegri meðferð. Bannað sé að ofbjóða kröftum dýrs eða þoli eða misbjóða dýrum á annan hátt. Á Íslandi sé þó „virkur iðnaður“ sem felist í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr því hormón sem seld eru til líftæknifyrirtækja sem svo aftur framleiða úr þeim frjósemislyf fyrir búfénað. Hormónið sem um ræðir finnst aðeins í blóði fylfullra mera.
„Líftæknifyrirtæki borga hátt verð fyrir hormónið og því hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu,“ segir í greinargerðinni. Árið 2019 hafi 5.036 merar verið notaðar í þessum tilgangi. Á nokkrum stöðum sé þetta orðið að stórbúskap þar sem um 200 merar séu haldnar til blóðframleiðslu. Miklir fjárhagslegir hvatar séu til staðar til að hámarka afköst. „Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er þar til hormónið fyrirfinnst ekki lengur í blóði þeirra og þá er þeim slátrað. Folöldin fara að jafnaði beint í slátrun.“
Í frumvarpi um velferð dýra er ekki fjallað sérstaklega um blóðmerahald og ekki heldur í reglugerðum um velferð hrossa og velferð dýra sem eru notuð í vísindaskyni. „Það er því ekkert í lögum eða reglugerðum sem kveður á um hve mikið af blóði megi taka úr fylfullum merum hverju sinni, né hve oft, né hvaða aðbúnaður þurfi að vera til staðar. Þetta er með öllu ótækt í ljósi þess hve umfangsmikil þessi starfsemi er hér á landi,“ stendur í greinargerð frumvarps Ingu Sæland.
Dæmi eru um að merar drepist við blóðtökuna en þótt þær geri það ekki „getur iðnaðurinn haft slæm áhrif á líf og líðan þeirra,“ segir í greinargerðinni og vitnað til Matvælastofnunar sem hafi gert alvarlegar athugasemdir á þremur bæjum vegna blóðmerahalds á síðustu þremur árum. „Það brýtur gegn öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni. Því er lagt til að bannað verði að taka blóð úr fylfullum merum í því skyni að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.“
Veita ber börnum viðhlítandi vernd
Í frumvarpi Guðmundar Inga, þingmanns Flokks fólksins, um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, er lagt til að í stað núverandi orðalags í lögunum, þar sem segir að „hlífa beri börnum“ við ónauðsynlegum aðgerðum og rannsóknum verði kveðið á um „afdráttarlaust bann“ við slíku.
Í greinargerð segir að þó að foreldrar hafi forræði yfir börnum sínum sé vald þeirra til að taka ákvarðanir um hag barna sinn ekki algert. Löggjafinn geti sett reglur sem takmarki réttindi foreldra. „Það er stjórnarskrárbundið hlutverk löggjafans að gæta sérstaklega að því að lög veiti börnum viðhlítandi vernd,“ segir í greinargerðinni.
Sérstaka athygli beri að veita þeim tilvikum þar sem ákvarðanir séu teknar sem hafi varanleg áhrif á líf barns, svo sem ákvarðanir um að framkvæma á börnum læknisaðgerðir. Í lögum um réttindi sjúklinga komi fram sú meginregla að foreldrar sem fari með forsjá barns skuli veita samþykki fyrir nauðsynlegum meðferðum en frá þeirri meginreglu séu þó undantekningar. Í lögunum er lögð sú skylda á heilbrigðisstarfsmenn að leita til barnaverndar neiti foreldrar að samþykkja nauðsynlega meðferð sjúkra barna. Þá er í þeim einnig heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að grípa tafarlaust til nauðsynlegrar meðferðar ef ekki vinnst tími til að leita liðsinnis barnaverndaryfirvalda.
„Mikilvægt er að gæta þess að foreldrar gangi ekki of langt þegar kemur að því að ákveða hvort barn skuli undirgangast meðferð,“ segir í greinargerð frumvarps Guðmundar Inga og í því sambandi bent á þá vísireglu frumvarpsins að hlífa beri börnum við ónauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum. Bent er á að ólíkt þeim reglum sem gilda um nauðsynlega læknismeðferð barna þá sé ekki fjallað um það í lögunum „hvernig brugðist skuli við þegar foreldrar óska eftir meðferð sem er með öllu óþörf“.
Faglegt mat ráði
Vísireglan um að „hlífa beri börnum“ er matskennd og „langt frá því að vera afdráttarlaus“. Því leggja flutningsmenn til að 2. mgr. 27. gr. laga um réttindi sjúklinga kveði á um það að óheimilt verði að framkvæma óþarfa aðgerðir og rannsóknir á börnum. Við mat á því hvort aðgerð teljist óþörf eða ekki þurfi eðlilega að taka mið af hagsmunum barnsins auk læknisfræðilegra og sálfræðilegra þátta. „Flutningsmenn leggja áherslu á að lífsskoðanir foreldra eiga ekki að geta réttlætt það að láta hjá líða að framkvæma tiltekna aðgerð eða valda því að tilteknar aðgerðir séu framkvæmdar, þá eigi það hvort foreldrar telji að barn þeirra velji að undirgangast tiltekna aðgerð í framtíðinni ekki að hafa áhrif á læknisfræðilegt mat á nauðsyn. Faglegt mat eigi ávallt að ráða.“