Stjórnarandstæðingar eru gagnrýnir á skipan nýrrar nefndar sem á að rýna í stöðu Ríkistúvarpsins. Gagnrýnin beinist að því að í nefndinni, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið tilkynnti um í gær, sitji einungis þrír stjórnarþingmenn. Nefndinni er ætlað að „sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk Ríkisútvarpsins.“
„Afsakið en hvaða grín er þetta?“ spyr Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar á Facebook og gagnrýnir að engir stjórnarandstöðuþingmenn séu hafðir með í ráðum. Hið sama gerir Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar, einnig í færslu á Facebook.
„Sannkölluð ráðstjórnarvinnubrögð!“ skrifar Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar í athugasemd við færslu Hönnu Katrínar. Freyja Steingrímsdóttir aðstoðarmaður Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar segir í annarri athugasemd að það sé „fyndið“ að það þurfi sérstakan vinnuhóp til að sætta ólík sjónarmið innan ríkisstjórnarflokkana.
Það finnst formanni þingmannahópsins hins vegar ekkert hlægilegt, heldur eðlilegt.
Í samtali við Kjarnann um hlutverk hópsins segir Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG að hann telji þetta vera „furðulega gagnrýni“ af hálfu stjórnarandstæðinga, en bætir við að það komi honum ekki á óvart að umræðan „snúist fremur um form en efni“.
Hér sé einfaldlega á ferð tilraun til þess að sjá hvort stjórnarflokkarnir þrír nái saman um einhverjar tillögur að breytingum sem síðan geti farið áfram í eðlilega þinglega meðferð.
Kolbeinn bendir á að venjulega þegar ráðherrar leggi fram mál þá bara vinni þeir að þeim innan síns ráðuneytis án aðkomu hinna ríkisstjórnarflokkanna. Hér séu fulltrúar þriggja flokka að reyna að ná saman um einhverjar breytingar sem allir geti fellt sig við. Ef ekki næst saman um tillögur á þeim rúma mánuði sem hópurinn hefur, „þá er það bara þannig og það gerist ekkert.“
Kolbeinn segir að það ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgist með stjórnmálum að afar ólík sjónarmið séu uppi um hlutverk Ríkisútvarpsins innan þeirra flokka sem myndað hafa saman ríkisstjórn yfir miðju frá árinu 2017. Hann sjálfur hafi til dæmis mikið rifist við sjálfstæðismenn um málið í þingsal.
„Ég hef lengi haldið á lofti mikilvægi RÚV,“ segir Kolbeinn við blaðamann og þau sjónarmið segist hann fara með inn á fundi sína með þeim Páli Magnússyni þingmanni Sjálfstæðisflokks og Silju Dögg Gunnarsdóttur frá Framsókn.
Þeir sem segja A þurfi að segja B
Kolbeinn segir að þingmannahópurinn muni skoða ýmsa þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins. Eitt af því sem tekið verður fyrir er staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, sem margir telja að valdi samkeppnisskekkju á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
„Ég hef sagt síðustu ár að þau sem segja að það þurfi að draga úr umfangi RÚV á auglýsingamarkaði þurfi þá einnig að svara því hvað á að koma í staðinn,“ segir Kolbeinn og bætir við: „Ef þú segir A þarftu að segja B“ og á þá við að finna verði út úr því hvernig eigi að tryggja Ríkisútvarpinu næga fjármuni „til að halda úti sinni mikilvægu starfsemi.“
„Ég er enginn sérstakur talsmaður fyrir því að RÚV sé á auglýsingamarkaði,“ segir Kolbeinn, og bætir því við að upp hafi teiknast skrítin staða á undanförnum árum, þar sem þeir sem vilji veg Ríkisútvarpsins sem mestan í íslensku samfélagi séu orðin „vörslumenn auglýsinga í Ríkisútvarpinu“ af því að áðurnefnt svar við B liggi ekki fyrir.
Frestur til 31. mars
Kolbeinn segist fara bjartsýnn inn í þessa vinnu með þeim Silju og Páli, en hópurinn á að skila tillögum til Lilju Alfreðsdóttur fyrir 31. mars.
„Ég lagði ríka áherslu á að tíminn væri hafður knappur,“ segir Kolbeinn og bætir við að ef það eigi að takast að leggja fram einhver þingmál upp úr vinnu hópsins sé 31. mars í reynd lokafrestur fyrir framlagningu. Kolbeinn segir þetta einfalda tilraun til að athuga hvor stjórnarflokkarnir nái saman um einhverjar breytingar.
„Ef það tekst fer það inn í þingið og allir hafa skoðanir á því og aðkomu og þá er nú til einhvers unnið. Ef það tekst ekki, þá er bara vinnutímum okkar þriggja þingmanna sóað og það er ekkert stórmál í sjálfu sér,“ segir þingmaðurinn.