Alls bera 34 prósent landsmanna traust til Alþingis samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem mælir árlega traust til stofnanna samfélagsins. Það eykst um ellefu prósentustig milli ára og hefur aukist um 16 prósentustig á tveimur árum. en Alþingi er samt sem áður í fjórða neðsta sæti yfir þær stofnanir sem almenningur treystir minnst. Fyrir neðan Alþingi eru einungis annað stjórnvald, borgarstjórn Reykjavíkur (22 prósent traust), bankakerfið (26 prósent) og þjóðkirkjan (32 prósent), en hún fellur um eitt sæti á traustlistanum milli ára.
Almennt hefur traust til stofnanna íslensks samfélags aukist milli ára. Það mælist nú meira hjá ellefu þeirra stofnana sem mælingin nær til en í fyrra, en minna hjá þremur. Þær þrjár stofnanir sem mælast með minna traust ný en 2020 lækka lítilega. Lögreglan lækkar um eitt prósentustig niður í 72 prósent, Umboðsmaður Alþingis um fjögur prósentustig niður í 49 prósent og Landhelgisgæslan um þrjú prósentustig niður í 86 prósent. Hún er samt sem áður sú stofnun landsins sem landsmenn treysta best allra, líkt og var í fyrra. Í öðru sæti á þeim lista er forseti Íslands sem nýtur trausts 80 prósent aðspurðra.
Traust til heilbrigðiskerfisins tekur gríðarlegt stökk upp á við eftir að hafa hrunið niður um tólf prósentustig á einu ári milli 2019 og 2020. Í febrúar í fyrra mældist traust á því 57 prósent en er nú 79 prósent. Engin ein stofnun bætir við sig jafn miklu trausti og heilbrigðiskerfið milli ára, en mikið hefur reynt á kerfið síðastliðið ár vegna COVID-19.
Greint var frá þjóðarpúlsi Gallup á RÚV í gærkvöldi.
Meira traust til Alþingis en í upphafi árs 2018
Alþingi, löggjafasamkunda Íslands, hefur átt við mikla trausterfiðleika að stríða allt fá hruni. Í síðustu mælingu Gallup á trausti til Alþingis fyrir þann atburð var niðurstaðan sú að 42 prósent þjóðarinnar treystu Alþingi. Árin eftir hrunið fór það niður í 10 til 13 prósent.
Svo virtist sem að traustið væri aðeins að ná sér á strik árið 2014 þegar það mældist 24 prósent, en svo komu Panamaskjölin ári síðar og það lækkaði aftur um nokkur prósentustig. Í byrjun árs 2017 var mynduð ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og traustið mældist 22 prósent. Hún sat í nokkra mánuði og sprakk í september sama ár vegna uppreist æru-málsins.
Aftur var kosið, í annað sinn á einu ári, og við tók ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í desember 2017.
Í stjórnarsáttmála hennar er lögð umtalsverð áhersla á traust. Þar stendur meðal annars: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“
Í fyrstu mælingu sem ríkisstjórnin og nýtt Alþingi fékk tók traustið kipp upp á við og mældist 29 prósent. Það var sögulega enn lágt, og langt frá því sem var fyrir bankahrun að jafnaði, en meira en nokkru sinni eftir þann atburð.
Árið 2019 hrundi það svo aftur og mældist 18 prósent, og hafði ekki mælst lægra frá því í upphafi febrúar 2016. Ástæðan var nær örugglega tengd, að minnsta kosti að hluta, Klausturmálinu svokallaða og því hvernig Alþingi tókst á við það mál.
Síðustu tvö ár hefur traustið svo aukist og er nú fimm prósentustigum meira en í fyrstu mælingu sem gerð var á trausti til Alþingis eftir að sitjandi ríkisstjórn var mynduð.
Borgarstjórn náði sér tímabundið en hefur dalað hratt
Traust til borgarstjórnar Reykjavíkur var í fyrra (17 prósent) á svipuðum slóðum og þegar Gallup mældi það fyrst eftir hrunið, í febrúar 2009, eða nokkrum mánuðum eftir bankahrun. Þá var traustið 18 prósent. Ári áður, í febrúar 2008, hafði það reyndar mælst enn lægra, eða níu prósent. Það er í eina skiptið sem stjórnvald hefur mælst með undir tíu prósent traust. Þá hafði gengið mikið á í borgarstjórn en alls fjórir meirihlutar sátu við völd það kjörtímabil.
Traustið lagaðist hægt og rólega og árin 2014 og 2015, við lok borgarstjórnarferils Jóns Gnarr og við upphaf borgarstjórnarferils Dags B. Eggertssonar, mældist það 31 prósent.
Það hefur oftast nær dalað á undanförnum árum og er þá þróun ugglaust hægt að rekja til harðvítugra átaka meirihluta og minnihluta á vettvangi borgarstjórnar um flest mál sem þangað rata.
Þrátt fyrir að traustið aukist um fimm prósentustig á milli ára er traust til borgarstjórnar enn minnst á meðal stofnana, eða 22 prósent.