Símon Sigvaldason héraðsdómari hefur verið metinn hæfastur þeirra þriggja sem sóttu um laust embætti dómara við Landsrétt áður en að umsóknarfrestur rann út í desember í fyrra.
Aðrir umsækjendur voru Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari og Jón Finnbjörnsson, dómari við Landsrétt.
Jón er eini dómarinn af þeim fjórum sem dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í mars 2019 í Landsréttarmálinu tekur til sem ekki hefur fengið nýja skipun við réttinn. Ásmundur Helgason var skipaður að nýju 17. apríl síðastliðinn, Arnfríður Einarsdóttir 1. júlí og Ragnheiður Bragadóttir þann 15. september. Þegar dómnefnd mat 33 umsækjendur um 15 lausar stöður við Landsrétt árið 2017 setti hún Jón í 30 sæti af 33. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað samt sem áður að skipa Jón, og þau þrjú sem nefnd voru hér að ofan, en voru ekki metin á meðal 15 hæfustu. Í kjölfarið úrskurðuðu íslenskir dómstólar að Sigríður hefði brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Hefur mikla reynslu
Í umsögn dómnefndar segir að það sé álit nefndarinnar að Símon sé hæfastur umsækjenda til að gegna stöðu dómara við Landsrétt. Hann hafi mikla reynslu af dómstörfum og hafi meðal annars verið settur dómari í Hæstarétti í fjölmörgum málum. Frá árinu 2017 hafi hann verið dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, hafi fjölþætta reynslu af stjórnsýslustörfum og verið formaður dómstólaráðs um árabil.
Símon hafi auk þess sinnt umtalsverðri kennslu í lagadeild Háskóla Íslands, samið tvö fræðirit og skrifað fræðigreinar um lögfræðileg álitaefni. „Síðast en ekki síst hefur hann sýnt með störfum sínum sem dómari að hann hefur gott vald jafnt á einkamála- og sakamálaréttarfari og er fær um að leysa úr flóknum lögfræðilegum ágreiningsefnum á greinargóðan og rökstuddan hátt.“
Dómnefndina skipuðu: Eiríkur Tómasson, formaður, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Halldór Halldórsson, Helga Melkorka Óttarsdóttir og Kristín Benediktsdóttir.