Enn á eftir að svara mörgum spurningum um virkni þeirra bóluefna fyrir COVID-19 sem þegar eru komin á markað. Vitað er að þau veita vörn gegn alvarlegum veikindum en svör vantar til dæmis enn við því hvort að bólusettur geti enn borið smit í aðra og hversu góða vörn þau veita gegn nýjum afbrigðum veirunnar.
Í desember og janúar fór af stað mikil umræða í samfélaginu um mögulega þátttöku Íslendinga í bóluefnarannsókn lyfjafyrirtækisins Pfizer. Bóluefni þess, sem þróað var í samstarfi við þýska líftæknifyrirtækið BioNtech, var það fyrsta sem fékk markaðsleyfi í Evrópu og á Íslandi. Eftir fund sóttvarnalæknis og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar með forsvarsmönnum Pfizer í febrúar var hins vegar ljóst að af henni yrði líklega ekki. Skýringin: Hér eru of fá smit til að slík rannsókn myndi skila þeim árangri sem stefnt var að.
Jóhanna Jakobsdóttir lektor í líftölfræði við Háskóla Íslands, veltir í viðtali við Kjarnann upp annarri hlið á málinu og segir að gera hefði mátt rannsóknina einmitt af því að smitin eru fá. Þannig hefði fengist ný þekking og önnur en í löndum þar sem byrjað var að bólusetja af kappi í miðri bylgju faraldurs. „Rannsóknin hefði getað svarað svo mörgum spurningum,“ segir hún. Ein sú helsta væri sú hversu mikið bóluefni dregur úr því að bólusettur einstaklingur sem sýkist smiti aðra. „Við hefðum getað svarað því mjög fljótt og það hefðu verið verðmætar upplýsingar fyrir alla bóluefnaframleiðendur. Því við erum með svo mikið af gögnum til að byggja á nú þegar.“
Rannsóknin hefði getað verið tvískipt, segir Jóhanna. Annars vegar byggt á því að fá leyfi vísindasiðanefndar til að taka saman lýðgrunduð gögn og gera á þeim samantektir en slíkt er nú þegar gert að einhverju leiti þegar við fáum upplýsingar um stöðu faraldurins frá sóttvarnalækni. Fylgst er með þróun faraldursins í þýðinu. „Þannig má segja að við séum þegar partur af rannsókn – innan gæsalappa,“ bendir Jóhanna á. En svo hefði einnig verið hægt að fara í klíníska rannsókn þar sem fólk er kallað inn til þátttöku, t.d. í mótefnamælingu og fleira, og þyrfti þá að sjálfsögðu gefa sitt upplýsta samþykki.
Pfizer er að gera sambærilega rannsókn í Ísrael samhliða fjöldabólusetningu en þar hófst hún í mestu bylgju faraldursins frá upphafi. „Ég tel að rannsókn hér hefði getað bætt við þekkingu einmitt af því að við erum nánast veirufrí. Þegar mikið smit er í gangi skekkir það mat okkar á raunverulegri virkni bóluefnis. Fólk getur til dæmis smitast áður en efnið er farið að virka. En á Íslandi hefðum við mögulega getað sýnt fram á það að þegar nánast ekkert smit er í gangi er virknin meiri en á fyrri stigum klínískra rannsókna. Við hefðum getað bólusett alla á skömmum tíma, í þessu góða ástandi, og svo hefði fólk farið að ferðast hingað og við héðan. Hvað hefði þá gerst? Þetta er áhugaverð rannsóknarspurning.
Aðalspurningin sem Pfizer þarf að leita svara við snýst um hjarðónæmið og hvort að bóluefnið komi ekki aðeins í veg fyrir sjúkdóm heldur einnig sýkingu yfir höfuð og hvort að bólusettir beri smit á milli.
Fyrir mér eru það vonbrigði að rannsóknin verði líklega ekki gerð hér. Ég held að hún hefði haft mikið gildi fyrir heimsbyggðina.“
Ítarlegt viðtal við Jóhönnu birtist í Kjarnanum um helgina og má lesa hér.