Lítil hreyfing er á afstöðu Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið á milli ára, en 41,8 prósent segjast andvíg því að ganga í sambandið á meðan að 29,6 prósent segjast hlynnt því. 28,6 prósent taka hvorki afstöðu með eða á móti í könnun um málið, sem Maskína framkvæmdi að eigin frumkvæði dagana 21. janúar til 1. febrúar 2021.
Maskína hefur mælt afstöðu landsmanna til inngöngu í Evrópusambandið með sambærilegum hætti þrjú ár í röð og hafa sveiflurnar verið litlar. Í fyrra voru um 31 prósent hlynnt inngöngu en um 39 prósent andvíg og árið 2019 voru 32 prósent hlynnt inngöngu en 43 prósent andvíg.
Skarpari skil voru þarna á milli í könnun sem Maskína gerði árið 2013, en þá voru 28 prósent hlynnt inngöngu og rúmur helmingur, eða um 51 prósent, sögðust andvíg því að Ísland gengi í ESB. Þá tóku einungis 21 prósent ekki afstöðu með eða á móti, en sá hópur hefur síðan stækkað á kostnað þeirra sem segjast andvígir inngöngu.
Í frétt Kjarnans á fimmtudag var dregið fram innan hvaða hópa í íslensku samfélagi helst mætti finna stuðning við aðild Íslands að Evrópusambandinu, en hér verður dregið fram hvaða hópar Íslendinga eru helst andvígir inngöngu.
Austfirðingar
Austfirðingar virðast andsnúnari inngöngu í Evrópusambandið en aðrir íbúar þessa lands. Samkvæmt niðurstöðum Maskínu eru tæp 68 prósent Austfirðinga andvíg því að Ísland gangi í sambandið. Einungis rúm 12 prósent þeirra telja, samkvæmt könnuninni, að ganga ætti í ESB.
Þegar horft er á hina landshlutana er næstmest andstaða á Norðurlandi, en þar eru 52 prósent andvíg inngöngu í ESB. Á Suðurlandi og Reykjanesi eru rúm 50 prósent andvíg, en á Vesturlandi og Vestfjörðum er hlutfall andvígra 44,7 prósent.
Á höfuðborgarsvæðinu er munurinn á milli hlynntra og andvígra mun minni, en hvergi eru hlynntir þó fleiri en andvígir. Í Reykjavík sjálfri eru nær allir hópar jafn stórir - þeirra andvígu, hlynntu og þeirra sem ekki taka afstöðu. Fastmótaðri skoðanir virðast í Kraganum, en þar eru 39,5 prósent andvíg og 34,9 prósent hlynnt inngöngu í ESB.
Þau sem ekki eru með háskólapróf
Þegar horft er til menntunarstigs eru það háskólamenntað fólk sem sker sig úr, en 35,2 prósent þeirra sem segjast með háskólagráðu eru hlynnt inngöngu Íslands í ESB og 34,5 prósent andvíg.
Um og yfir helmingur annarra svarenda, sem eru þá ýmist með framhaldsskólapróf eða iðnmenntun eða grunnskólapróf, segjast andvígir inngöngu.
Þeir tekjulægstu … og þeir tekjuhæstu
Næstum því helmingur þeirra (47-48,6 prósent) sem eru með samanlagðar heimilistekjur undir 549 þúsundum á mánuði leggjast gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Einungis tæplega 15 prósenta stuðningur er við aðild hjá þeim hópi sem ekki nær heimilistekjum upp á 400 þúsund krónur mánaðarlega.
Stuðningur við inngöngu eykst eftir því sem heimilistekjurnar fara hækkandi, án þess þó að fleiri í nokkrum tekjuhópi séu hlynntir en andvígir aðild. Þegar tekjur ná yfir 1,2 milljónum króna eykst þó andstaðan töluvert, en 47,2 prósent þeirra sem eru í tekjuhæsta flokknum segjast á móti aðild.
Kjósendur X-M, X-D, X-B og X-F
Á stjórnmálasviðinu eru skörpustu skilin. Þau sem sögðust ætla að kjósa Miðflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn, Flokk fólksins og Framsókn er könnunin var gerð voru einnig langflest andvíg því að ganga í Evrópusambandið.
Mest mældist andstaðan hjá þeim sem hafa í hyggju að kjósa Miðflokkinn, eða 75,8 prósent. Næst á blaði voru væntir kjósendur Sjálfstæðisflokks, en 72,2 prósent þeirra vilja ekki ganga í Evrópusambandið, samkvæmt könnun Maskínu.
---
Svarendur könnunarinnar voru 866 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og eiga því að endurspegla þjóðina prýðilega.