Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfum fjögurra erlendra starfsmanna á hendur starfsmannaleigunni Menn í vinnu (MIV ehf.) og Eldum rétt, en dómur þessa efnis var kveðinn upp fyrr í dag. Þessum fjórum fyrrverandi starfsmönnum Manna í vinnu er auk þess gert að greiða þremur fyrrverandi stjórnendum og hluthöfum starfsmannaleigunnar, sem farin er í þrot, milljón krónur hverju í málskostnað.
Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er á þá leið að þar sem gjaldþrotaskiptum á búi starfsmannaleigunnar hafi lokið 11. september 2020 verði engum frekari kröfum komið fram gagnvart félaginu eftir það tímamark, að minnsta kosti ekki á meðan þess sé ekki krafist að skiptin verði endurupptekin.
Fram kemur í dómnum að stefnendur hafi ekki upplýst um afstöðu skiptastjóra til krafna þeirra í búið, þrátt fyrir að skorað hafi verið á þá um að gera það. Einnig kemur fram í niðurstöðu héraðsdóms að framburður stefnenda varðandi greiðslur til þeirra hafi verið ótrúverðugur og í andstöðu við gögn sem stefnendur hefðu sjálfir lagt fram í málinu. Þá hafi frádráttur af launum starfsmannanna verið í samræmi við ráðningarsamninga þeirra.
Eldum rétt var stefnt í málinu sem notendafyrirtæki starfsmannaleigunnar, en þetta var í fyrsta sinn sem látið hefur verið reyna á nýlegt ákvæði um keðjuábyrgð í lögum um starfsmannaleigur fyrir dómi. Þar sem kröfum starfsmannanna fjögurra á hendur starfsmannaleigunni var vísað frá dómi er málinu einnig vísað frá gagnvart Eldum rétt.
Málið hefur verið til meðferðar í dómskerfinu frá því haustið 2019 og oft verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, en stéttarfélagið Efling fékk lögmannsstofuna Rétt til þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í málum sem varðaði starfsmannaleiguna. Fyrirtækið Eldum rétt, sem selur tilbúna matarskammta sem fólk getur eldað heima hjá sér, hefur lengi sagt að fyrirtækið sé dregið inn í þetta dómsmál að ósekju.
Kröfðust milljóna í miskabætur
Kröfur starfsmannanna fjögurra voru vegna meints ólögmæts frádráttar launa og vanvirðandi framkomu í þeirra garð af hálfu starfsmannaleigunnar og stjórnenda hennar, snemma árs 2019. Hver og einn starfsmaður krafðist 1,5 milljóna króna í miskabætur frá stefndu í sameiningu, auk þeirra fjármuna sem þeir töldu að hefðu verið dregnir af sér með ólögmætum hætti.
Sem áður segir var kröfum á hendur starfsmannaleigunni og þar af leiðandi Eldum rétt vísað frá sökum þess að búið er að gera upp þrotabú Manna í vinnu.
Stjórnendur og eigendur Manna í vinnu, þau Halla Rut Bjarnadóttir, Unnur Sigurðardóttir og Friðrik Örn Jörgensson voru sýknuð af kröfunum sem beindust persónulega gegn þeim, að sögn dómsins þar sem enginn annar en starfsmannaleigan sjálf, sem er farin í þrot, geti borið lagalega ábyrgð á meintum ólögmætum frádrætti launagreiðslna.
Ekki óskað eftir úttekt né lögreglurannsókn þrátt fyrir alvarlega ásakanir um slæman aðbúnað
Starfsmennirnir fjórir dvöldu í húsnæði að Dalvegi 24 í Kópavogi eftir að þeir komu til landsins og sögðu aðstæður þar ómannúðlegar. Í stefnu málsins kom fram að 6-8 manns hefðu gist saman í herbergi.
Ragnar Ólafsson starfsmaður Eflingar kom fyrir dóm og sagðist hafa heimsótt húsið í febrúar 2019. Þá hefðu verið þar að minnsta kosti 15 einstaklingar í 5 herbergjum. Húsnæðið hafi ekki verið boðlegt fyrir svo marga. Fram kom í fréttum á þessum tíma og á ný fyrir dómi að sérstakt mansalsteymi félagsmálaráðuneytisins hefði verið virkjað vegna þessa máls.
Dómari í málinu segir að þrátt fyrir að mjög alvarlegar ásakanir hafi verið settar fram um ástand húsnæðisins, hafi hvorki verið óskað eftir úttekt á húsnæði samkvæmt húsaleigulögum eða lögreglurannsókn, „sem fullt tilefni hefði þó verið til miðað við þessar ásakanir.“
Þar að auki hefði engin tilraun verið gerð til þess að leggja fram nafnalista yfir aðra þá starfsmenn eða leigjendur sem bjuggu í húsnæðinu, hvað þá gögn um það hvort þeir hefðu greitt leigu fyrir afnotin eða hvað mikið.
Dómari í málinu segir að auki að framburður stefnenda sjálfra hafi verið „afar reikull“ um það hve mörg herbergi hafi verið í rýminu og og hve margir hafi búið í þeim.