Þetta er mjög kröftug hrina og hún er að raða sér á svæði á milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar, sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands í aukafréttatíma RÚV í hádeginu. Hún segir upptök skjálftanna á nokkrum stöðum. „Þetta byrjaði austan við Fagradalsfjall, svo flutti hún sig nær Krísuvík en svo höfum við sé að skjálftarnir eru að raða sér upp á öllu þessu svæði.“
Stærsti skjálftinn í hrinunni sem hófst í morgun var 5,7 á stærð og er hrinan bundin við Reykjanesið. Tugir skjálfta hafa fylgt í kjölfarið og margir hafa verið yfir 4 að stærð. „Það er mikil virkni á þessu svæði,“ sagði Kristín, „þannig að þetta er óvenjulegt.“
Engin merki um gosóróa hafa fundist og því segir Kristín að ekki sé vitað til þess að skjálftarnir tengist eldsumbrotum. Sérfræðingar eru nú á svæðinu við mælingar, m.a. gasmælingar. Tilgangurinn er að reyna að sjá hvort að einhverjar breytingar séu á svæðinu.
„Þetta er mikill óstöðugleiki sem nær yfir stórt svæði,“ sagði Kristín. Almannavarnir hafa fundað vegna málsins og segir Kristín að við séum í „einhverjum atburði núna en á meðan óstöðugleiki er í gangi eru auknar líkur á því að það verði fleiri skjálftar og jafnvel stærri skjálftar.“
Vísbending um það er sú staðreynd að frá Kleifarvatni og til Bláfjalla hafa ekki mælst skjálftar allt þetta ár. „Það gæti verið til marks um að það svæði sé læst og að brotni ekki nema í stærri skjálfta. Þar hafa verið stórir skjálftar, allt að 6,5, svo við þurfum að undirbúa okkur fyrir að það verði stærri skjálftar.“
Jarðskjálftahrina hófst í morgun í nágrenni við Fagradalsfjall. Klukkan 10.05 varð jarðskjálfti af stærð 5,7 rúma 3 kílómetra suðsuðvestur af Keili. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar numið alls 11 skjálfta yfir 4,0 að stærð frá því hrinan hófst.
Þeir hafa fundist víða á suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. Unnið er að nánari yfirferð á skjálftavirkninni. Veðurstofan bendir á að skjálftavirknin sé bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar.