„Niðurstaðan í gær var ömurleg. Enn ein sönnunin á því að sá hópur vinnuaflsins sem jaðarsettastur er skal ekki gera sér neinar vonir um að réttlætið sé að finna hjá þeim sem stýra kerfinu. Réttindaleysi þeirra og valdaleysi er engin tilviljun, heldur útkoma kerfislægs misréttis,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, á Facebook í dag.
Hún vísar til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem í gær vísaði frá máli fjögurrra rúmenskra verkamanna gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu og Eldum rétt, sem keypti þjónustu starfsmannanna af starfsmannaleigunni.
Málinu virðist ekki endanlega lokið, en stéttarfélagið Efling, sem hefur haldið utan um málareksturinn fyrir hönd starfsmannanna, ætlar að styðja þá í að skjóta niðurstöðu dómsins til Landsréttar. Einnig hefur komið fram að þær milljónir í málskostnað sem rúmensku verkamönnunum var gert að greiða verði greiddar úr sjóðum Eflingar.
Framkvæmdastjóri SA hvetur Eldum rétt til að skoða málsókn á hendur Eflingu
Eins og Kjarninn fjallaði um í gær byggðist frávísun Héraðsdóms á kröfum rúmensku verkamannanna gagnvart Menn í vinnu og Eldum rétt á því að ekki væri hægt að koma fram með nýjar hendur á starfsmannaleigunni sökum þess að hún væri komin í þrot og gjaldþrotaskiptum hefði lokið 11. september í fyrra.
Fram kom í dómnum að stefnendur, rúmensku verkamennirnir fjórir, hefðu ekki upplýst um afstöðu skiptastjóra til krafna þeirra í búið, þrátt fyrir að skorað hafi verið á þá um að gera það.
Einnig kom fram í niðurstöðu héraðsdóms að framburður stefnenda varðandi greiðslur til þeirra hafi verið ótrúverðugur og í andstöðu við gögn sem stefnendur hefðu sjálfir lagt fram í málinu. Þá hafi frádráttur af launum starfsmannanna verið í samræmi við ráðningarsamninga þeirra.
Í tilkynningu segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA að um sé að ræða „sneypuför“ stéttarfélagsins Eflingar gegn Eldum rétt.
„Efling stéttarfélag hafði upp stór orð í fjölmiðlum og sakaði fyrirtækið Eldum rétt meðal annars um að nýta sér bágindi verkafólks og skipta við starfsmannaleigu sem framkvæmdastjóri Eflingar kallaði „einhvers konar mansalshring,“ segir Halldór Benjamín.
Forsvarsmenn stéttarfélagsins hafa deilt hart á Eldum rétt á opinberum vettvangi fyrir að nýta sér þjónustu starfsmannaleigunnar, sem hafði, áður en rúmensku starfsmennirnir fjórir voru leigðir til Eldum rétt, verið til umfjöllunar í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV vegna aðbúnaðar erlendra verkamanna sem störfuðu hjá fyrirtækinu.
Halldór Benjamín segir að ljóst sé, af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, að málshöfðunin gegn Eldum rétt hafi verið „tilefnislaus“ og á sama tíma sé ljóst að „aðför Eflingar að Eldum rétt og tilefnislausar ásakanir hafa valdið fyrirtækinu miklu tjóni“. Í því ljósi sé eðlilegt að fyrirtækið skoði réttarstöðu sína gagnvart Eflingu.