„Þeir eru miklu ódýrari á Íslandi í dag heldur en á öllum Norðurlöndunum,“ segir Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri afþreyingarmiðla og sölu hjá Símanum, um nýja keppinautinn á sjónvarpsmarkaði, norrænu streymisveituna Viaplay.
Magnús segist eiga von á því að Viaplay hækki verðin samhliða því sem streymisveitan stækkar íþróttapakkann sinn, eins og til stendur, en í haust mun Viaplay byrja að sýna Meistaradeild Evrópu í fótbolta og þá hefur streymisveitan tryggt sér sýningarréttinn á leikjum íslenska landsliðsins frá 2022 til 2028. Fótboltamaðurinn Rúrik Gíslason hefur verið ráðinn til þess að stýra knattspyrnuumfjöllun Viaplay á Íslandi.
„Það hlýtur bara að vera, annað væri bara skaðleg undirverðlagning,“ sagði Magnús og bætti við að þetta yrði ekki lengur upphæð sem færi framhjá fólki á kreditkortayfirlitinu, en Viaplay hefur verðlagt heildarpakkann sinn, sem inniheldur íþróttir, á 1.599 krónur á mánuði til þessa.
Magnús ræddi við þá Elmar Torfason og Gunnlaug Reyni Sverrisson um framtíð sjónvarps á Íslandi í nýjasta þætti Tæknivarpsins, sem birtist í Hlaðvarpi Kjarnans í morgun.
Telur innlenda aðila geta búið til meiri verðmæti úr enska boltanum
Í þættinum ræddu þeir um væntanlega samkeppni um sýningarréttinn að ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, sem Síminn er með í dag. Þáttarstjórnendur spurðu Magnús hvort það væri ekki erfitt að keppa við risa eins og Viaplay, sem finndu e.t.v. ekki mikið fyrir því hvort þeir borguðu einn milljarð eða tvo milljarða fyrir sýningarréttinn.
Magnús svaraði því til að Viaplay vildi „náttúrlega ekki tapa peningum á Íslandi“ og þá yrði spurningin hvort Síminn eða aðrir innlendir aðilar gætu búið til meiri verðmæti úr enska boltanum með því að selja enska boltann í pakka með öðrum vörum, eins og Síminn gerir í dag.
„Þannig var gamla 365-módelið, þannig er Sýnar-módelið, þetta á að vera verðmætara fyrir okkur en einhvern sem kemur að utan og selur bara staka áskriftir,“ sagði Magnús.
„Þannig að þið eruð að fara að bjóða „full-force“ í enska boltann?“
„Jájá,“ sagði Magnús, sem sagði þó allt geta gerst þegar enski boltinn yrði boðinn út. Mögulega gæti farið svo að útsendingarrétturinn á enska boltanum hérlendis myndi deilast á fleiri en einn aðila, þar sem varan er boðin út í pökkum.
Premium jafn stórt og Stöð 2 þegar hún var stærst
Magnús sagði að Premium-þjónustan væri alltaf að verða stærri og stærri vara hjá Símanum og innlend framleiðsla væri að aukast í takt við það.
„Við erum komin vel yfir 40 þúsund áskrifendur. Premium er jafn stór og Stöð 2 var þegar hún var stærst, 2003-2004. Þetta er langstærsta innlenda þjónustan og þó hún sé ekki dýrust er hún farin að búa til verulegar tekjur fyrir okkur. Það er krafa á okkur að framleiða stöðugt efni til þess að halda öllum þessum kúnnum ánægðum.“
Magnús ræddi einnig um þessa framleiðslu Símans á eigin efni og meðal annars væntanlega aðra þáttaröð af Stellu Blómkvist. Hann ljóstraði því upp að hann sjálfur yrði handtekinn í næstu seríu og „færður í böndum út úr Símanum.“
Hann sagði Símann í raun í löngu vera búinn að henda línulega módelinu hvað sjónvarpsdagskrá varðar, þrátt fyrir að vera enn með sjónvarpsrás sína í loftinu. „Öll okkar áhersla í framleiðslu og markaðssetningu er bara á Premium, á streymiveituna,“ sagði Magnús.
Í dag kaupir Síminn þáttaseríur að utan til sýninga á Premium og fær þá einnig rétt til þess að sýna þættina í línulegri dagskra á sjónvarpsrás sinni. „Við getum gert þetta [...] en það er ekki módel sem mun lifa til framtíðar,“ sagði Magnús.