Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands að Símon Sigvaldason héraðsdómari verði skipaður í embætti dómara við Landsrétt. Símon var metinn hæfastur þeirra þriggja sem sóttu um laust embætti dómara við Landsrétt áður en að umsóknarfrestur rann út í desember í fyrra.
Fallist forseti á tillögu dómsmálaráðherra, sem hann gerir án undantekninga, þá mun Símon taka sæti í Landsrétti eftir helgi, eða 1. mars.
Aðrir umsækjendur um stöðuna voru Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari og Jón Finnbjörnsson, dómari við Landsrétt.
Jón er eini dómarinn af þeim fjórum sem dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í mars 2019 í Landsréttarmálinu tekur til sem ekki hefur fengið nýja skipun við réttinn. Ásmundur Helgason var skipaður að nýju 17. apríl síðastliðinn, Arnfríður Einarsdóttir 1. júlí og Ragnheiður Bragadóttir þann 15. september. Þegar dómnefnd mat 33 umsækjendur um 15 lausar stöður við Landsrétt árið 2017 setti hún Jón í 30 sæti af 33. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað samt sem áður að skipa Jón, og þau þrjú sem nefnd voru hér að ofan, en voru ekki metin á meðal 15 hæfustu.
Mjög reyndur dómari
Í umsögn dómnefndar um hæfi umsækjenda sagði að það væri álit nefndarinnar að Símon sé hæfastur umsækjenda til að gegna stöðu dómara við Landsrétt. Hann hafi mikla reynslu af dómstörfum og hafi meðal annars verið settur dómari í Hæstarétti í fjölmörgum málum. Frá árinu 2017 hafi hann verið dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, hafi fjölþætta reynslu af stjórnsýslustörfum og verið formaður dómstólaráðs um árabil.
Símon hafi auk þess sinnt umtalsverðri kennslu í lagadeild Háskóla Íslands, samið tvö fræðirit og skrifað fræðigreinar um lögfræðileg álitaefni. „Síðast en ekki síst hefur hann sýnt með störfum sínum sem dómari að hann hefur gott vald jafnt á einkamála- og sakamálaréttarfari og er fær um að leysa úr flóknum lögfræðilegum ágreiningsefnum á greinargóðan og rökstuddan hátt.“
Áfram í leyfi
Kjarninn greindi frá því í vikunni að beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna skipunar dómara í Landsrétt, sem var dæmd ólögmæt af Hæstarétti og Mannréttindadómstól Evrópu, er 140.952.843 krónur.Þá er ekki taldar með skaðabætur sem Eiríkur Jónsson, einn þeirra fjögurra sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að leggja ekki til að yrði skipaður í réttinn þrátt fyrir að dómnefnd hafi talið hann á meðal hæfustu umsækjenda. Auk þess vantar kostnað af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og starfsmanns hennar, kostnað vegna auglýsinga og annar slíkur kostnaður sem til féll á undirbúningsstigi. Þá vantar inn í tölurnar kostnað vegna vinnu ríkislögmanns vegna málsins, en sá kostnaður hefur aldrei fengist uppgefinn. Því má ætla að endanlegur kostnaður vegna málsins verði mun hærri.
Hæsti kostnaðurinn vegna málsins féll til vegna settra dómara í fjarveru þeirra fjögurra dómara sem þurftu að fara í leyfi frá Landsrétti eftir að skipan þeirra var dæmd ólögmæt. Þrír þeirra hafa nú verið endurskipaðir og sá fjórði, Jón Finnbogason, sótti um lausa stöðu við réttinn í lok síðasta árs. Fyrr í þessari viku komst dómnefnd um hæfi umsækjenda hins vegar að þeirri niðurstöðu að Símon Sigvaldason væri hæfasti umsækjandinn um það starf og tillaga hefur nú verið gerð um að skipa Símon í embættið.
Þegar upphaflega var skipað í Landsrétt hafði Jón lent í 30. sæti af 33 umsækjendum á hæfnislista dómnefndar, en Sigríður ákvað samt sem áður að skipa hann. Kostnaður Landsréttar vegna leyfis dómaranna var rúmlega 73 milljónir króna í lok síðasta árs og hann heldur væntanlega áfram að hækka á meðan að Jón er í leyfi.