Hagsmunasamtök heimilanna eru einu hagsmunasamtök landsins sem hafa sent tilkynningu til Stjórnarráðs Íslands um skráningu hagsmunavarða, sem kallast einnig lobbíistar. Samtökin skráðu í þeirri tilkynningu þrjá einstaklinga sem hagsmunaverði á sínum vegum: formann og varaformann stjórnar og sérfræðing á málefnasviði samtakanna. Þetta kemur fram í tilkynningu um skráningu hagsmunavarða sem samtökin hafa sent Kjarnanum. Tilkynningin var send til forsætisráðuneytisins 1. janúar 2021, sama dag og ný lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum, sem kalla á skráningu hagsmunavarða, gengu í gildi.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að einn aðili hafi skráð sig sem hagsmunavörð þrátt fyrir að tveir mánuðir væru liðnir frá því að lög fóru að kveða á um slíka skráningu. Þar var byggt á svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata um málið. Ljóst er að réttara er að segja að ein tilkynning um hagsmunaverði hafi borist sem náði yfir þrjá einstaklinga.
Telja ráðuneytið brotlegt
Lagasetningin gerði einnig ráð fyrir að skrá yfir tilkynningar um hagsmunaverði yrði birt á vef Stjórnarráðsins. Það hefur ekki gerst og samkvæmt svari forsætisráðherra stendur vinna við gerð sérstaks vefsvæðis yfir. „Vinnan er á lokastigi en ráðgert er að vefsvæðið verði aðgengilegt almenningi í lok febrúarmánaðar.“
Hagsmunasamtök heimilanna telur að í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs felist viðurkenning á nokkrum lögbrotum að hálfu þess ráðuneytis sem hún stýrir. Þau benda meðal annars á að ráðuneytið hafi um tæplega tveggja mánaða skeið verið brotlegt við lagaskyldu sína til að birta skrá yfir tilkynningar um hagsmunaverði á vef Stjórnarráðsins, þar sem umrædd lög tóku gildi 1. janúar 2021.
Í svari forsætisráðherra kom fram að Katrín sjálf hefur átt fimm fundi á þessu tímabili með fulltrúum hagsmunasamtaka sem ætla má að verði skráðir hagsmunaverðir. Hagsmunasamtök heimilanna telja þetta einnig fela í sér lögbrot þar sem að skilyrði laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum segja að tilkynna þurfi sig sem hagsmunaverði áður en hagsmunaverðir leitast við að hafa áhrif á störf stjórnvalda. „Ekki kemur fram hversu mörg slík tilvik eru hjá öðrum ráðuneytum og stofnunum, en leiða má líkur að því að þau séu enn fleiri, fyrst að ekki hefur verið gætt að þessu hjá því ráðuneyti sem ber sjálft ábyrgð á framkvæmd þessara laga.“
Að lokum gera Hagsmunasamtök heimilanna athugast við það að í svari forsætisráðherra komi ekki fram hverjir hafi verið tilkynntir sem hagsmunaverðir eins og spurt var um, heldur er aðeins getið um fjölda slíkra tilkynninga. „Þar sem nöfn viðkomandi aðila komu vissulega fram í tilkynningu okkar og ráðuneytið bjó því sannarlega yfir upplýsingum um hverjir það væru, en lét þess ekki getið í svarinu, brýtur það í bága við 1. mgr. 50. gr. laga um þingsköp.“