Verði frumvarp til nýrra fjarskiptalaga samþykkt mun það gera að verkum að fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn mun þurfa að greiða 325 milljónir króna í tengslum við endurúthlutun tíðna á árunum 2022 til 2023.
Sýn hefur andmælt þessum áformum í umsögn sem félagið hefur sent hlutaðeigandi þingnefnd á þeim grundvelli að um sértæka skattlagningu verði að ræða sem vafi leiki á að samræmist meginreglum skattaréttar um jafnræði, sem og eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.
Þetta kemur fram í ársreikningi Sýnar sem birtur var á miðvikudag. Umrætt frumvarp var lagt fram í maí í fyrra og hefur verið meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd síðan þá. Sýn skilaði 20 blaðsíðna umsögn um frumvarpið í fyrrasumar.
Þar er einnig fjallað um annað frumvarp sem getur haft áhrif á kjarnastarfsemi félagsins, um styrkveitingar til einkarekinna fjölmiðla. Verði það frumvarp að lögum yrði það ívilnandi fyrir Sýn, en félagið fékk alls 91 milljón króna í styrki úr ríkissjóði á árinu 2020 þegar styrkjum til einkarekinna fjölmiðla var úthlutað á grundvelli reglugerðar sem sett var vegna COVID-19 faraldursins.
Tap annað árið í röð
Sýn tapaði 405 milljónum króna á síðasta ári. Það er töluvert minna tap en félagið skilaði af sér árið 2019, þegar það tapaði 1.748 milljónum króna. Samanlagt tap samstæðunnar á tveimur árum er því tæplega 2,2 milljarðar króna.
Heildartekjur Sýnar jukust á síðasta ári. Sú aukning var öll vegna þess að upplýsingafyrirtækið Endor, sem Sýn keypti í lok árs 2019, kom inn í samstæðureikning félagsins. Allir aðrir tekjustofnar Sýnar drógust saman á árinu 2020.
Mestur var samdrátturinn í fjölmiðlahluta Sýnar, en tekjur hans drógust saman um 559 milljónir króna á milli ára. Frá lokum árs 2018 hafa tekjur vegna fjölmiðla Sýnar lækkað um rúmlega einn milljarð króna.
Jákvæð teikn voru þó á lofti á fjórða ársfjórðungi síðasta árs þegar tekjur af fjölmiðlun voru sex milljónum krónum meiri en þær voru á sama fjórðungi 2019.
Ef uppgjör Sýnar eru skoðuð tvö ár aftur í tímann, og leiðrétt er fyrir einskiptishagnaðinum vegna sölunnar á P/F Hey í byrjun árs 2019, þá hefur félagið skilað tapi á öllum ársfjórðungum áranna 2019 og 2020 nema einum. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2020 skilaði það átta milljón króna hagnaði.