Lífeyrissparnaður landsmanna nam um 6.050 milljörðum við lok síðasta árs. Þetta kemur fram í nýjum tölum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um heildareignir samtryggingar- og séreignasparnaðar. Í samantekt bankans um gögnin kemur fram að lífeyrissparnaður landsmanna hafi aukist um 773 milljarða króna á síðasta ári, „þrátt fyrir erfiðleika og óvissu á fjármálamörkuðum vegna heimsfaraldurs COVID-19.“ Þessi aukning er tilkomin bæði vegna ávöxtunar og inngreiðslna.
Í samantektinni er lífeyriseign landsmanna sett í samhengi við landsframleiðslu síðasta árs en samkvæmt nýlegri áætlun frá Hagstofunni var landsframleiðsla tæpir þrjú þúsund milljarðar á síðasta ári. Lífeyriseignir landsmanna jafngilda því tvöfaldri landsframleiðslu.
Eignir í samtryggingardeildum lífeyrissjóða voru 5.119 milljarðar við árslok í fyrra en eignir í séreignadeildum sjóðanna nam 595 milljörðum. Eignir hjá innlendum vörsluaðilum séreignasparnaðar nam 247 milljörðum. Þá er áætlað að 100 milljarðar til viðbótar séu hjá erlendum aðilum sem bjóða séreignasparnað.
Rúmlega tvö þúsund milljarðar í erlendum gjaldeyri
Í samantektinni segir að helsta breytingin í eignaflokkum á árinu hafi verið sú að eignir í erlendum gjaldmiðlum jukust um 426 milljarða króna eða um 25 prósent. Hlutdeild erlendra gjaldmiðla í eignasöfnum lífeyrissjóða var rúmlega 35 prósent við lok síðasta árs, eða um 2.103 milljarðar króna. Hjá samtryggingardeildum nam hlutfallið 37 prósentum af heildareignum og hefur það aldrei verið hærra. Gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum lækkaði á síðasta ári og spilar gengisbreytingin að einhverju leyti þar inn.
Heildareignir samtryggingardeilda voru um 5.119 milljarðar við lok síðasta árs og jukust þær um 673 milljarða króna sem jafngildir um 15 prósenta aukningu. Í áðurnefndri samantekt er farið yfir helstu breytingar á eignaflokkum samtryggingardeilda. Þannig hækkuðu eignir í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða um 325 milljarða króna eða um tæplega 32 prósent. Sértryggð skuldabréf í eignasöfnum sjóðanna jukust um 24 prósent eða um 46 milljarða króna. Eignir í hlutabréfum félaga jukust um 19 prósent og í skuldabréfum félaga um 17 prósent, samtals um 135 milljörðum króna.
Dregið hefur úr aukningu séreignar
Heildareignir séreignasparnaðar í vörslu innlendra aðila námu 842 milljörðum króna við lok síðasta árs og jukust þær um tæplega 101 milljarð í fyrra. Fram kemur í samantekt Seðlabankans að vegna aukinna heimilda til úttekta séreignasparnaðar hefur dregið úr aukningu eigna.
Líkt og hjá samtryggingardeildum var mest aukning eigna í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða en hún nam rúmum 41 milljarði króna eða 27 prósentum. Mesta hækkunin hlutfallslega var í eignum í skuldabréfum og peningamarkaðsskjölum en í þeim flokki nam hækkunin 44 prósentum eða 15 milljörðum króna. Við árslok var fjórðungur eigna séreignasparnaðarerlendur gjaldeyrir eða um 211 milljarðar króna. Aukningin í þeim flokki nam tæplega 44 milljörðum á síðasta ári.