Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki hafa verið í sambandi við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, áður en hún hringdi í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, á aðfangadag í fyrra. Þetta kom fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þegar Áslaug Arna kom fyrir nefndina og svaraði spurningum nefndarmanna um málið, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Á vef RÚV er hins vegar haft eftir dómsmálaráðherra að hún hafi vitað að það var Bjarni sem hafði verið í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þar sem grunur er um að sóttvarnarbrot hafi verið framið. Í sömu frétt segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, að hann sjái ekkert sem bendi til þess sem stendur að ráðherra hafi farið yfir mörk eftirlitshlutverks síns og haft óeðlileg afskipti af máli sem væri í rannsókn hjá lögreglu.
Upplýsingum ekki miðlað áfram til fjölmiðla
Nýverið opinberaði RÚV að Áslaug Arna hefði hringt tvívegis í Höllu Bergþóru á aðfangadag 2020 í kjölfar þess að lögreglan hafði greint fjölmiðlum frá því að „háttvirkur ráðherra“ hefði verið staddur í samkvæmi í Ásmundarsal kvöldið áður, þar sem grunur er um að sóttvarnarbrot hafi verið framið. Umræddur ráðherra reyndist vera Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Áslaug Arna sagði í liðinni viku við RÚV að samtöl hennar við lögreglustjórann hafi verið vegna spurninga sem hún hafði um verklag og upplýsingagjöf við gerð dagbókarfærslna lögreglu. „Fjölmiðlar spurðu mig hvort hún væri eðlileg. Ég þekkti ekki verklag dagbókarfærslna lögreglunnar og spurði aðeins um það.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu sjálf 26. desember, tveimur dögum eftir að Ásmundarsalsmálið kom upp, þar sem hún gerði sjálf grein fyrir því að upplýsingar um að „háttvirtur ráðherra“ hefði veið á viðburðinum sem lögreglan stöðvaði í salnum á Þorláksmessu væru á skjön við vinnureglur hennar. Persónuvernd taldi ekki ástæðu til að aðhafast vegna dagbókarfærslunnar þar sem almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar.
Lögreglustjórinn kemur á morgun
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákvað í dag að boða lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á fund sinn á morgun til að fá hennar hlið á málinu.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar sem situr í nefndinni, tók málið upp undir liðnum störf þingsins í síðustu viku og sagði þar að hegðun Áslaugar Örnu og gerðir væru „mikill dómgreindarbrestur“ að hennar mati. Erindið hafi getað sett lögreglustjórann í „óþægilega stöðu.“
Halla Bergþóra var í viðtali í Silfrinu á RÚV í gær en í upphafi þess kom fram að hún vildi ekki tjá sig að sinni um símtöl dómsmálaráðherra til sín á aðfangadag þar sem málið væri komið til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Þegar greint var frá því að formleg rannsókn væri hafin á samkomunni, þann 30. desember í fyrra, sagði í tilkynningu frá lögreglu að rannsóknin fæli meðal annars í sér að yfirfara upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna með tilliti til brota á sóttvörnum. Rannsókninni lauk seint í janúar og málið var í kjölfarið sent til ákærusviðs sem tekur ákvörðun um það hvort að sektarboðum verði beitt eða hvort ekki þyki ástæða til þess. Þar er málið enn til meðferðar.
Þá greindi mbl.is frá því í lok síðustu viku að nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu sé að kanna samskipti hennar við fjölmiðla eftir að samkvæmið í Ásmundarsal á Þorláksmessu var leyst upp. Einnig verður kannað hvort samræmi sé milli þess sem komi fram á upptöku og þess sem skrifað var í skýrslu lögreglu.