Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 5,8 prósent fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup og bætir við sig tveimur prósentustigum milli mánaða. Fylgi flokksins hefur aldrei mælst meira en nú og hann myndi nokkuð örugglega ná mönnum inn á þing miðað við þessa niðurstöðu.
Þetta vekur athygli þar sem flokkurinn hefur hvorki kynnt stefnuskrá fyrir næstu kosningar né opinberað nokkuð um hverjir verða á lista hans í þeim, sem fara fram 25. september næstkomandi. Sósíalistaflokkurinn hefur einungis einu sinni áður boðið fram, í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 2018, og náði þar 6,4 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík og Sanna Magdalena Mörtudóttir tók í kjölfarið sæti í borgarstjórn fyrir hönd hans.
Enginn einn flokkur hefur náð til sín jafn miklu fylgi á yfirstandi kjörtímabili og Sósíalistaflokkurinn.
Stjórnin undir kjörfylgi
Stjórnarflokkarnir þrír eru á svipuðum slóðum og þeir voru fyrir mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,9 prósent fylgi, Vinstri græn með 13,4 prósent og Framsóknarflokkurinn með 10,3 prósent. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja er nú 46,8 prósent og tvísýnt hvort það myndi duga þeim fyrir naumum meirihluta ef kosið yrði í dag.
Bæði Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn hafa tapað fylgi frá síðustu kosningum en Framsóknarflokkurinn er að mælast með nánast sama fylgi. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er nú 6,1 prósentustigi minna en það sem þeir fengu upp úr kjörkössunum 2017.
Misjafn árangur stjórnarandstöðu
Samfylkingin dalar milli mánaða og mælist nú með 14,4 prósent stuðning. Viðreisn tapar líka og alls 9,4 prósent aðspurðra segjast ætla að kjósa flokkinn. Píratar bæta hins vegar við sig og mælast nú með 12,2 prósent stuðning. Allir þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar mælast með meira fylgi en þeir fengu 2017. Sameiginlegt fylgi þeirra nú er 36 prósent, sem er átta prósentustigum meira en þeir fengu í síðustu kosningum.
Tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa tapað fylgi á kjörtímabilinu: Miðflokkurinn sem mælist nú með 7,3 prósent stuðning og Flokkur fólksins sem mælist með fjögur prósent fylgi. Miðflokkurinn er kominn nálægt því fylgi sem hann mældist með mánuðina eftir að Klausturmálið svokallað kom upp og Flokkur fólksins myndi ekki ná inn á þing að óbreyttu.
Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 28. febrúar 2021. Heildarúrtaksstærð var 9.078 og þátttökuhlutfall var 52,5 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,3 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.