„Nú virðist sem áætlanir um ferðalög erlendra jafnt sem innlendra ferðamanna eigi frekari möguleika á að ganga eftir á næstu misserum í ljósi þess hve mjög faraldurinn hefur gengið niður hér á landi, útgáfu bólusetningadagatals hérlendis og framgangs bólusetninga erlendis,“ segir í samantekt um efnisatriði minnisblaðs sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fór með á ríkisstjórnarfund á þriðjudag.
Í dagskrá ríkisstjórnarinnar segir að Þórdís Kolbrún hafi farið yfir stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi í ljósi vísbendinga um ferðavilja innlendra og erlendra ferðamanna. Kjarninn óskaði eftir frekari upplýsingum um það sem ráðherra fjallaði um í ríkisstjórn á þriðjudaginn og fékk samantekt um efnisatriði minnisblaðsins í hendur.
Mest bókað frá júlí og inn í haustið hjá Icelandair
Það sem Þórdís Kolbrún kynnti fyrir ríkisstjórn byggði meðal annars á upplýsingum frá Icelandair, en samkvæmt því sem fram kemur í samantektinni frá ráðuneytinu hafa bókanir erlendra ferðamanna verið „í takt við þróun faraldursins, fréttir af bóluefnum og markaðsaðgerðir Icelandair með tilboðum og kynningum á Íslandi sem áfangastað.“
Bókanir erlendra ferðamanna hjá Icelandair eru umtalsvert færri en undanfarin ár, en eru þó sagðar geta gefið vísbendingar sem hægt sé að draga ályktanir af. Flestar bókanir koma frá Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi og Danmörku og er mest bókað frá júlímánuði og inn í síðsumarið og haustmánuðina.
Á bilinu 9-12 prósent á helstu mörkuðum vilja ferðast til Íslands næsta árið
Samkvæmt því sem fram kemur í samantekt ráðuneytisins styðja upplýsingar frá Íslandsstofu við greiningu Icelandair á stöðunni. Stór neytendakönnun á helstu erlendu mörkuðum sem framkvæmd var í febrúar 2021 sýndi að samkeppnisstaða Íslands er góð miðað við helstu samanburðarlönd, en 9-12 prósent sögðust vilja ferðast til Íslands næstu 12 mánuði, samkvæmt samantekt ráðuneytisins.
„Önnur minni neytendakönnun Íslandsstofu sem var framkvæmd á helstu erlendu mörkuðum í janúar 2021 gaf vísbendingar um að Þjóðverjar verði líklega fyrr tilbúnir að bóka ferðalag eða ferðast til útlanda en Bandaríkjamenn,“ segir í samantekt ráðuneytisins, en þar segir að nær allir svarendur könnunarinnar, eða 96 prósent, hafi gefið til kynna að þeir myndu mun fremur velja áfangastaði sem hefðu staðið sig vel í baráttunni gegn COVID-19.
Boris Johnson virðist hafa kveikt ferðavilja Breta
Í samantekt ráðuneytisins segir að samkvæmt greiningu sem alþjóðlega ferðabókunarvefsíðan Expedia vann fyrir Íslandsstofu komi Ísland vel út hvað varðar leitarfyrirspurnir frá lykilmörkuðum árið 2020 miðað við samanburðarlönd og að árið 2021 hafi sömuleiðis farið vel af stað.
70 prósent bókana fyrir Ísland á Expedia eru í júnímánuði og síðar. Fram kemur að merkja hafi mátt 55 prósenta aukningu á eftirspurn frá Bretlandi eftir að Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tilkynnti að alþjóðleg ferðalög gætu mögulega hafist frá 17. maí næstkomandi, en Bretum er í dag bannað að ferðast á milli landa án brýns erindis.
Rúmur helmingur ferðaheildsala telur að bókanir til Íslands nái sömu hæðum og fyrir COVID strax árið 2022
Í minnisblaðinu sem Þórdís Kolbrún fór með fyrir ríkisstjórn var einnig fjallað um könnun sem Íslandsstofa framkvæmdi á meðal ferðaheildsala sem selja ferðir til Íslands í janúarmánuði. Þar komu fram vísbendingar um að ferðaheildsalar á Norðurlöndunum og í Mið -og Suður Evrópu væru heldur bjartsýnni á það að bókanir til Íslands myndi taka við sér á fyrri hluta árs 2021 heldur en ferðaheildsalar frá Norður-Ameríku og fjarmörkuðum.
Þá telji ferðaheildsalar stöðuna á bólusetningum og viðbrögð stjórnvalda við COVID-19 hafa mest áhrif á val áfangastaða 2021, en 55 prósent þeirra telja að bókanir á ferðum til Íslands nái sömu hæðum og fyrir landamæralokanir árið 2022, en 31 prósent þeirra sem svöruðu telja að þær nái ekki sömu hæðum fyrr árið 2023.