Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að „allir helstu fjölmiðlar“ hafi haft samband við sig á aðfangadag vegna samkomunnar í Ásmundarsal sem lögreglan stöðvaði á Þorláksmessukvöld og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var viðstaddur.
Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Kjarnans, en ekki kemur skýrt fram í svarinu hvort allir helstu fjölmiðlar landsins hafi spurt sérstaklega út í verklagsreglur lögreglu í tengslum við dagbókarfærslu sem kom út að morgni aðfangadags og vakti mikla athygli.
Fram kom í máli ráðherra í gær að hún hefði ekki veitt fjölmiðlum neinar upplýsingar um málið þrátt fyrir að hafa hringt tvívegis í Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag til þess að leita sér upplýsinga.
„Ég fékk spurningar frá fjölmiðlum sem ég þurfti að svara og ákvað síðan að svara ekki,“ sagði Áslaug Arna í samtali við fréttamann Stöðvar 2 fyrir utan ráðherrabústaðinn í gær.
Að eigin sögn hringdi Áslaug Arna í lögreglustjórann til þess að geta svarað spurningum fjölmiðla um málið og þá sérstaklega fréttatilkynningu lögreglu, svokallaða dagbókarfærslu, þar sem tekið var fram að „háttvirtur ráðherra“ hefði verið viðstaddur samkomuna í Ásmundarsal.
„Þegar ljóst var hvers eðlis málið var og hvernig það var að þróast þennan sama dag, taldi ég ekki við hæfi að tjá mig um það – hvorki um dagbókarfærsluna sjálfa né aðra anga málsins,“ segir Áslaug Arna í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Ræddi við Bjarna eftir símtöl við lögreglustjóra
Kjarninn spurði dómsmálaráðherra hvort hún hefði átt einhver samskipti við Bjarna Benediktsson á aðfangadag og ef svo væri, hvort þau samskipti hefðu átt sér stað fyrir eða eftir að dómsmálaráðherra hringdi í lögreglustjórann.
Áslaug Arna segist í svari sínu ekki hafa átt samskipti við Bjarna áður en hún átti samskipti við lögreglustjóra, en að hún hafi átt samskipti við Bjarna síðar á aðfangadag.
Lítur á samskiptin sem óformleg
Fram kom í máli dómsmálaráðherra á Alþingi í gær að hún liti svo á að samskipti sín við lögreglustjóra á aðfangadag hefðu verið óformleg og því ekki skráningarskyld, samkvæmt gildandi reglugerð um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands.
„Ég hef margítrekað hvað fór okkar á milli. Ég spurði um þær verklagsreglur sem giltu um þessar dagbókarfærslur því ég hafði fengið spurningar um það frá fjölmiðlum sem og hvaða persónuverndarsjónarmið giltu,“ sagði Áslaug Arna í þinginu í gær.
Hún bætti því við að hún hefði ekki áhyggjur af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hvað þetta atriði varðar heldur hafi hún einfaldlega viljað geta svarað spurningum fjölmiðla um persónuverndarsjónarmið og hversu langt lögreglan geti gengið í framsetningu upplýsinga í dagbókarfærslum sínum.