Persónuverndarfulltrúi stjórnarráðsins hefur tilkynnt Persónuvernd um öryggisbrest vegna mistaka sem urðu við birtingu lista með málsheitum úr málaskrá heilbrigðisráðuneytisins föstudaginn 26. febrúar. Þetta var gert í gær, í kjölfar þess að Kjarninn sendi fyrirspurnir á bæði heilbrigðisráðuneytið og Persónuvernd vegna málsins.
Stjórnvöld hófu síðasta föstudag að birta upplýsingar úr málaskrám ráðuneyta, eins og þeim er skylt að gera samkvæmt breytingum á upplýsingalögum sem tóku gildi um áramót. Stjórnvöldum ber að lágmarki að birta skrá yfir mál sem eru til meðferðar í ráðuneytunum í tilefni af innsendu eða útsendu erindi.
„Birting upplýsinga úr málaskrám ráðuneyta er liður í vinnu stjórnvalda við að auka upplýsingafrelsi og gagnsæi í stjórnsýslunni,“ sagði í tilkynningu stjórnvalda á föstudaginn. Gagnsæið reyndist þó of mikið hjá einu ráðuneyti.
Ráðuneytin taka mál sín saman í Excel-skjöl til birtingar á vefnum, en í flestum tilfellum er ekki hægt að finna í skjölunum persónugreinanlegar upplýsingar um málin í málaskránni og því segja málaskrár ráðuneytanna eins og þær birtast almenningi ekki mikla sögu. Sú var hins vegar ekki raunin varðandi það skjal frá heilbrigðisráðuneytinu sem fyrst fór á netið á föstudag.
„Málsheiti í málaskrá - Fer ekki á vef“
Í skjali heilbrigðisráðuneytisins sem birtist á vef stjórnarráðsins voru tveir dálkar, annar sambærilegur þeim sem hin ráðuneytin settu fram en hinn bar yfirskriftina „Málsheiti í málaskrá - Fer ekki á vef“. Í þeim dálki var ekki búið að fjarlægja persónugreinanlegar upplýsingar og uppruna þeirra erinda sem fóru inn eða út úr ráðuneytinu í janúarmánuði.
Skjalið var á vefnum í skamma stund og innan þess tímaramma sótti blaðamaður Kjarnans það, ásamt skjölunum frá öðrum ráðuneytum. Heilbrigðisráðuneytið segir að samkvæmt þess bestu vitund hafi rangt skjal verið í birtingu í innan við tvær mínútur.
Í skjalinu eru upplýsingar sem ætla má að fólk úti í bæ kæri sig ekki um að ráðuneytið geri opinberar. Til dæmis má þar lesa að nafngreindur maður kom í janúar á framfæri mótmælum til ráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar útskriftar nafngreindrar konu af bráðaöldrunardeild sjúkrastofnunar og að ríkislögmaður óskar eftir áliti frá ráðuneytinu vegna bótamáls nafngreinds starfsmanns sjúkrastofnunar, sem slasaðist við vinnu.
Einnig má þar lesa að þingmaður hafi komið á framfæri athugasemd vegna ráðningar starfsmanns hjá tiltekinni sjúkrastofnun utan höfuðborgarsvæðisins. Kjarninn hafði samband við þingmanninn, sem staðfesti þetta, en skildi reyndar ekki af hverju málið væri inni á borði hjá ráðuneytinu, þar sem hann hefði sent athugasemdir sínar beint á stjórnanda sjúkrastofnunarinnar. Málið væri af persónulegum toga.
Í skjalinu er einnig hægt að sjá nöfn fjölmargra blaða- og fréttamanna og lesa megininntak fyrirspurna þeirra til ráðuneytisins, sem flestar tengjast COVID-19.
Dæmi: „Kjarninn miðlar - Beiðni um afrit af fyrirliggjandi gögnum vegna ráðstafana á landamærunum - Arnar Þór Ingólfsson (ME)“.
Einnig má lesa að ráðuneytið kom á framfæri einhverri ábendingu vegna fréttar Morgunblaðsins frá 6. janúar, þar sem fjallað var um að samkvæmt áætlunum yrði komið bóluefni fyrir 30 þúsund manns í lok marsmánaðar, eða 8,1 prósent landsmanna.
Þá má einnig sjá fyrirspurnir og beiðnir frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum varðandi undanþágur frá gildandi sóttvarnaráðstöfunum, til dæmis vegna útfara eða annarra viðburða.
Svo einnig fyrirspurnir frá fólki um það hvaða takmarkanir á eðlilegu mannlífi séu í gildi: „Covid-19 - Fyrirspurn hvort 2 metra reglan sé í gildi“ heitir eitt málið í málaskránni, en alls eru þau rúmlega 350 talsins.
Ekki efnisleg umfjöllun um málefni einstaklinga
„Skjalið var fjarlægt án tafar þegar mistökin við birtingu urðu ljós. Ráðuneytið vill taka fram að þær upplýsingar sem birtar voru fela ekki í sér efnislega umfjöllun um málefni einstaklinga, þótt í nokkrum tilvikum hafi komið fram nöfn einstaklinga í tengslum við tiltekin mál,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans, þar sem einnig var sagt frá því að öryggisbrestur hefði verið tilkynntur til Persónuverndar vegna mistakanna.
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um málið hjá Persónuvernd í gær hafði hvorki stjórnarráðið né heilbrigðisráðuneytið tilkynnt öryggisbrest, en undir kvöld bárust svör frá ráðuneytinu um að það hefði verið gert.