Með Alþingisappinu gæti fólk hlustað og horft á þingfundi á svipaðan hátt og gert er með vinsæl hlaðvörp að mati Söru Elísu Þórðardóttur varaþingmanns Pírata sem hvatti þingmenn Alþingis í dag til þess að skoða alvarlega að koma á fót smáforriti fyrir þingið, Alþingisappinu.
„Þó að yfirstandandi heimsfaraldur hafi lagt dauða hönd á flesta fleti daglegs lífs á einhverjum tímapunkti þá hefur hann hins vegar gætt almennri tækninotkun og tækniskilningi stórauknu lífi. Jafnvel nefndarfundir alþingis hafa færst yfir á fjarfundarformið. Eins höfum við séð afburðar smitrakningarapp þróað hér á mettíma. En forseti, hvar er alþingis appið?“ spurði Sara Elísa á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins.
Fólk gæti vaktað tiltekin þingmál
Hún sagði slíkt smáforrit geta gert almenningi kleift að fylgjast betur með störfum þingsins, það gæti haldið fólki upplýsti um þingmál og fólk jafnvel vaktað tiltekin þingmál. Þannig væri hægt að fá tilkynningar þegar tiltekin mál er sett á dagskrá eða þegar atkvæðagreiðsla fer fram um sömu mál. Hún sagði slíkt forrit einnig geta haft fræðslugildi, þar mætti setja inn myndbönd um störf þingsins og þar væri hægt að birta upplýsingar um kosningar og kosninganiðurstöður.
Að hennar mati væri hægt að fjármagna gerð slíks smáforrits með sölu á varningi. „Og þó að lýðræðið kosti jú peninga, virðulegi forseti, þá þyrfti þetta alls ekki að vera dýrt, gæti jafnvel fjármagnað sig sjálft með sölu á Alþingisvarningi í gegnum netið.
Önnur þjóðþing hafa farið svipaða leið og nefndi Sara Elísa til dæmis breska þjóðþingið. Hvatti hún þingmenn til að skoða þennan möguleika og að „uppfæra alþingi enn meira, styrkja beint lýðræði og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu á þeim formum sem bjóðast.“